Fara í efni
Alfreð Gíslason

Bríet Fjóla á reynslu hjá IFK Norrköping

Bríet Fjóla Bjarnadóttir í lokaleik Þórs/KA í haust. Mynd: Ármann Hinrik.

Bríet Fjóla Bjarnadóttir, hin bráðefnilega knattspyrnukona í Þór/KA, er á leiðinni til Svíþjóðar á næstu dögum til æfinga hjá úrvalsdeildarfélaginu IFK Norrköping. Þetta kemur fram í frétt á vef Þórs/KA í dag

Í frétt á vef félagsins er sagt frá því að IFK Norrköping hafi fylgst vel með Bríeti Fjólu og verið í sambandi við Jóhann Kristin Gunnarsson, fráfarandi þjálfara Þórs/KA, sem og foreldra hennar. Jóhann Kristinn verður með í för ásamt Bjarna Frey Guðmundssyni, föður Bríetar Fjólu. Nokkuð er síðan þessi heimsókn til Norrköping var ákveðin og skipulögð, en eins og kunnugt er hefur Jóhann Kristinn hætt störfum hjá Þór/KA og tekið við þjálfarastöðu hjá meistaraflokki Þróttar í Reykjavík. Taugin til Þórs/KA hefur þó eðlilega ekki slitnað.

„Það er auðvitað merkilegt að fá boð frá sænsku úrvalsdeildarfélagi um að koma á reynslu. Bríet Fjóla hefur eðlilega vakið athygli enda hæfileikarnir miklir og framtíðin er hennar. En hún er auðvitað enn ung að árum og mikilvægt að taka öll þrepin í stiganum og flýta sér ekki of mikið. Þetta veit hún og þessi reynslutími með Norrköping er enn eitt flotta skrefið á hennar leið. Fá að máta sig við sterka atvinnumenn á æfingum með aðalliði félagsins,“ segir Jóhann Kristinn á vef Þórs/KA.

Bríet Fjóla hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í meistaraflokkshópi Þórs/KA tvö undanfarin keppnistímabil og hefur nú þegar komið við sögu í 32 leikjum í Bestu deildinni, þar af 17 á nýloknu keppnistímabili. Leikirnir í meistaraflokki eru samtals orðnir 46, en Bríet Fjóla er fædd í janúar 2010 og því ekki orðin 16 ára. Hún var í lok tímabils verðlaunuð sem efnilegasti leikmaður Þórs/KA á tímabilinu.

Strax að lokinni Svíþjóðardvölinni heldur hún til Slóveníu með U17 landsliði Íslands sem mætir Færeyjum og Slóveníu í undankeppni EM 2026.

Bríet Fjóla kom í fyrsta skipti við sögu með Þór/KA í Bestu deildinni 13. september 2023 þegar Þór/KA vann Breiðablik, 3:2, á Þórsvellinum, í leik sem var minningarleikur um afa hennar, Guðmund Sigurbjörnsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson.