Fara í efni
Akureyrarvaka

Akureyri – Fyrstu verkalýðsfélögin

Myndir: Minjasafnið á Akureyri

SÖFNIN OKKAR – 72

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega.

Í dag er 1. maí, baráttudagur verkalýðsins og er því vel við hæfi að skyggnast aðeins inn í verkalýðssögu bæjarins.

Fyrsta verkalýðsfélagið á Akureyri, Verkalýðsfélag Akureyrarkaupstaðar (hið eldra), kom til sögunnar undir lok 19. aldar en afar lítið er vitað um það. Heimildum ber ekki saman um hvort stofnár félagsins hafi verið 1894 eða 1897 þó svo að síðara ártalið sé líklegra. Sem dæmi þá hafa varðveist lög félagsins en þau eru skráð 19. apríl 1897. Hvort sem er þá varð félagið ekki langlíft og lagðist af um fjórum árum síðar.

Kröfuganga á Akureyri árið 1947. Takið eftir fánanum lengst til vinstri á myndinni. Á honum er mynd af tveimur konum í íslenskum þjóðbúningi að takast í hendur, en þetta er fáni verkakvennafélagsins Einingar. Elísabet Geirmundsdóttir – Listakonan í fjörunni – útbjó fánann tveimur árum áður þegar Eining fagnaði 30 ára afmæli, en Elísabet var þá félagi í Einingu.

Vorið 1909 gerðist það að nokkrar konur á Akureyri tóku sig til og stofnuðu verkakvennafélagið Þörfina. Fljótlega komust ýmsar sögur á kreik um hið nýstofnaða félag og til þess að fyrirbyggja allan misskilning ákvað stjórnin að birta bæði markmið og lög félagsins á prenti. Birtist greinin í bæjarblaðinu Norðurlandi 13. maí 1909. Kom þar skýrt fram að helsta markmið félagsins væri að berjast gegn því að laun síldarkvenna myndu lækka enn frekar, en þau höfðu þá lækkað talsvert á undanförnum árum og vildu þær tryggja ákveðin grunn- eða lágmarkslaun. Jafnframt kom fram í greininni að um 80 konur á Akureyri og í nágrenni hefðu skrifað nöfn sín undir lög félagsins. Svo virðist vera sem að félagið hafi aldrei starfað með skipulögðum hætti og lagst af sama ár. Hvað sem því líður er Þörfin talið vera fyrsta verkakvennafélagið sem stofnað var á Íslandi.

Þrátt fyrir að hvorugt þessara félaga lifði lengi þá ruddu þau brautina fyrir önnur félög á Akureyri sem á eftir komu. Árið 1906 var Verkamannafélag Akureyrar stofnað og árið 1915 stofnuðu verkakonur verkakvennafélag sem fékk nafnið Eining. Stuttu áður höfðu nokkrir félagar í Verkamannafélaginu hvatt konur eindregið til þess að stofna sitt eigið félag og berjast fyrir bættum kjörum. Síðan var Iðja, félag verksmiðjufólks á Akureyri stofnað árið 1936. Veitti það ekki af enda unnu margir Akureyringar á gömlu verksmiðjunum á þeim tíma og átti það eftir að aukast enn frekar. Árið 1943 var svo Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar (hið yngra) stofnað. Síðan þá hafa ýmis verkalýðsfélög verið sett á stofn á Akureyri og nágrenni í tímans rás.

Að lokum er rétt að nefna Verkalýðsfélag Glerárþorps, en það var sett á stofn 13. mars 1926 í skólahúsinu í Sandgerðisbót sem enn stendur. Það var lagt niður árið 1938, en stuttu áður hafði verið stofnað Verkamannafélag Glæsibæjarhrepps, en Glerárþorp var hluti af Glæsibæjarhreppi til 1955. Á meðfylgjandi myndum má sjá myndir frá ýmsum tímum sem tengjast verkalýðsbaráttu á Akureyri.