Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Áætluð eyðsla farþega easyJet 1,2 milljarðar

Efnahagsleg áhrif millilandaflugs easyJet um Akureyrarflugvöll eru umtalsverð.

Samkvæmt skýrslu sem birt var nýverið á vef Ferðamálastofu eyddu ferðamenn sem komu með flugfélaginu easyJet til Akureyrar veturinn 2023-2024 tæplega 500 milljónum króna á ferðalögum um Norðurland. Miðað við sömu forsendur og notaðar voru í skýrslunni má áætla að veturinn 2024-2025 hafi heildareyðslan verið yfir 1.200 milljónir króna.

Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við Háskólann á Akureyri vann skýrsluna fyrir Flugþróunarsjóð, með það að markmiði að kanna efnahagsleg áhrif millilandaflugs easyJet um Akureyrarflugvöll. Meðal annars voru áhrif á landsframleiðslu og skatttekjur metin, áhrif á Íslendinga sem fóru erlendis frá Akureyri í stað Keflavíkur, samfélagsáhrif og sjálfbærni og rekstrargrundvöllur þess að styðja nýjar flugleiðir með opinberu fjármagni.

Nokkrir aðilar stunda millilandaflug um Akureyrarflugvöll og geta fengið styrki frá íslenskum stjórnvöldum, rétt eins og flugfélög sem fljúga um Keflavíkurflugvöll. EasyJet er umsvifamest á þessum vettvangi norðanlands og veturinn 2023-2024 voru áætlunarferðir tvisvar í viku til og frá Lundúnum. Félagið fékk um 75 milljónir króna í styrk frá íslenskum stjórnvöldum vegna þessa flugs þennan vetur, að því er kemur fram í skýrslu Jóns Þorvaldar.

Margvíslegur ávinningur af reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll

Áætlað er að tæplega 2.400 farþegar hafi komið til landsins með easyJet þennan vetur og eytt um 493 milljónum króna hér á landi. Ávinningur þeirra liðlega 3.000 Íslendinga sem ferðuðust til útlanda frá Akureyri í stað þess að fara frá Keflavík er umtalsverður. Samkvæmt skýrslunni er áætlað að 1.290.000 km akstur hafi sparast og með minni akstri hafi sparast kaup og brennsla á 90.000 lítrum af jarðefnaeldsneyti, sem hefðu kostað um 27 milljónir króna. Útblástur á koltvísýringi minnkaði með þessu um 220 tonn og tímasparnaður farþega við að sleppa við aksturinn er áætlaður 2.280 dagar. Þessu til viðbótar koma ýmsir þægindaaukandi þættir sem ekki er hægt að mæla tölulega.

Skipting áætlaðrar eyðslu erlendra ferðamanna sem koma með easyJet til Akureyrar.

Síðastliðinn vetur bauð easyJet einnig upp á flug til og frá Manchester tvisvar í viku og áætlað er að fjöldi erlendra ferðamanna hafi tvöfaldast frá því sem var þegar ofangreindar tölur voru reiknaðar. Áætluð heildareyðsla erlendu ferðamannanna veturinn 2024-2025 er yfir 1.250 milljónir króna.

Á vef Markaðsstofu Norðurlands má sjá yfirlit yfir það beina flug til og frá Akureyrarflugvelli sem verður á dagskrá komandi vetur. Fyrsta flug easyJet til Lundúna er á dagskrá laugardaginn 4. október.