Áherslu frétt
Vélfag stefnir ríkinu – Segja ráðherra og Arion banka ryðja brautina fyrir gjaldþrot
22.09.2025 kl. 12:40

Tæknifyrirtækið Vélfag á Akureyri hefur stefnt íslenska ríkinu vegna viðskiptaþvingana sem félagið hefur sætt og gert er ráð fyrir frekari málshöfðunum bæði á Íslandi og í Lúxemborg. Þetta kemur fram í harðorðri tilkynningu sem birt var á Facebook síðu Vélfags í dag.
- Í tilkynningunni segir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, hafi fyrir helgi ákveðið að Vélfag verði sent í gjaldþrot innan fjögurra vikna nema félagið leggi fram „afgerandi gögn eða upplýsingar“ en hins hafi ráðuneytið ekki tilgreint hvaða gagna sé krafist.
- Vélfag, sem hannar og framleiðir fiskvinnsluvélar til notkunar á sjó og landi, sætir efnahagslegum þvingunaraðgerðum sem eru hluti af viðbrögðum Íslands, Noregs og Evrópusambandsins við innrás Rússa í Úkraínu en Vélfag var áður í eigu rússneska fyrirtækisins Norebo. Núverandi meirihlutaeigandi er Ivan Kaufmann, kaupsýslumaður frá Liechtenstein.
- Spurt er í tilkynningu Vélfags: Fyrir hvern starfa Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Arion banki með því að ryðja brautina fyrir gjaldþrot Vélfags?
Tilkynningin sem Vélfag birti í morgun er svohljóðandi; feitletranir eru blaðamanns:
Vélfag stendur frammi fyrir gjaldþroti þrátt fyrir strategískt mikilvægi fyrir íslenskan sjávarútveg.
Síðasta fimmtudag var höfðað fyrsta málið gegn íslenska ríkinu í svokölluðu „Vélfagsmáli“ í Reykjavík. Gera má ráð fyrir frekari málshöfðunum bæði á Íslandi og í Lúxemborg (EFTA og EES).
Á föstudaginn gaf Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra, út nýja ákvörðun þar sem segir að Vélfag verði sent í gjaldþrot innan fjögurra vikna nema félagið leggi fram „afgerandi gögn eða upplýsingar“. Hins vegar hefur ráðuneytið ekki tilgreint hvaða gagna sé krafist. Á sama tíma var undanþáguramminn þrengdur enn frekar sem setur frekari hindranir á rekstur félagsins.
Þessi ákvörðun stendur í beinni mótsögn við fyrri yfirlýsingu ráðherrans um að Vélfag sé „strategískt mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg.“
Í dag eru 84% af íslenskum frystitogurum búnir vélum frá Vélfagi, og tækni félagsins er einnig í notkun í sumum af öflugustu landvinnslum Íslands. Afleiðingar nauðungarlokunar væru alvarlegar fyrir greinina í heild, þar sem yfir 20 störf á Akureyri væru í húfi og grundvallarstarfsemi íslensks sjávarútvegs væri raskað.
Fulltrúar greinarinnar óttast að þessar aðgerðir séu ekki afleiðingar einfaldrar stjórnsýslulegrar vanrækslu heldur virðist hér vera um að ræða markvísa – og ólögmæta – tilraun til að brjóta niður að öllu leyti heilbrigt íslenskt fyrirtæki. Slíkar aðgerðir gætu leitt til umfangsmikilla málaferla vegna skaðabóta gegn íslenska ríkinu, sem að lokum myndi lenda á skattgreiðendum.
Árétta ber að hvorki Vitaly Orlov, Nikita Orlov né núverandi meirihluta eigandi hafa nokkru sinni verið á viðurlagalista. Einnig er engin tenging milli núverandi hluthafa og Norebo. Löggjöf Evrópusambandsins um viðurlög er skýr í þessu samhengi: Íslandi hefur hvorki verið falið né hefur rétt til að setja Vélfag eða hluthafa þess á lista. Ljóst er að evrópskur dómstóll muni taka skýra ákvörðun í þessu máli.
Aðgerðirnar sem nú eru reknar eru óhóflegar, byggðar á veikum lagagrundvelli og vekja alvarlegar spurningar: Fyrir hvern starfa Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Arion banki með því að ryðja brautina fyrir gjaldþrot Vélfags?