Fara í efni
Alþingiskosningar

Krafan um fulla atvinnu í forgrunn

Um fátt er meira talað en orrusturnar gegn heimsfaraldri kórónaveiru sem staðið hafa síðasta eitt og hálfa árið. Þrátt fyrir fjórar innrásir veirunnar hefur alltaf tekist hér á Íslandi að verjast skynsamlega, þökk sé heilbriðgis- og framlínustarfsfólki, ásamt öllum almenningi og stjórnvöldum. Aftur á móti var önnur orrusta sem staðið hefur samhliða en verið hefur mun hljóðara um. Það er baráttan við að halda uppi tekjum launafólks með fordæmalausri íhlutun ríkisvaldsins í gangverk atvinnulífsins. Sú orrusta hefur líka verið sigursæl. Ráðstöfunartekjur jukust almennt séð árið 2020. En því miður kom það ekki í veg fyrir að tekjur þeirra sem misstu vinnuna lækkuðu. Það gerðist þrátt fyrir að atvinnuleysisbætur væru hækkaðar með því að lengja tímabil tekjutengingar. Þriðja orrustan er svo framundan því sækja þarf fram til þess að hagkerfið verði í stakk búið til að skapa miklu fleiri störf.

Full atvinna

Það er ekki nóg að halda uppi tekjum fólks með lántökum ríkissjóðs. Atvinna snýst ekki eingöngu um salt í grautinn, þó að það sé vissulega ákaflega mikilvægt að eiga til hnífs og skeiðar. Atvinna snýst öðrum þræði einnig um reisn. Með því að vera sviptur réttinum til þess að leggja sitt að mörkum til samfélagsins í sveita síns andlits, er verið að takmarka þáttöku í samfélaginu. Þessvegna þarf að fjölga störfum, auka framboð á hlutastörfum fyrir fólk með skerta starfsgetu, að auka rétt eldra fólks til að halda áfram að vinna. Að hafa atvinnu snýst um að framleiða eitthvað eða veita einhverja þjónustu sem hefur gildi og aðrir þarfnast. Réttlát tekjudreifing er mikilvæg – en réttinn til þess að taka þátt í samfélaginu með vinnuframlagi má heldur ekki vanvirða.

Fjölbreytt græn störf er svarið

Það er til siðs hjá sumum pólitíkusum að tala um verkamannastörf og önnur láglaunastörf með hálfgerðri lítilsvirðingu. Nú þurfi að kosta kapps um að skapa hálaunastörf fyrir fólk með háskólamenntun. Vissulega er þörf á hvorutveggja. En fyrst og fremst þarf að skapa störf fyrir sem flest. Svo að sem allra flest öðlist réttinn til þess að taka þátt í samfélaginu og leggja sitt að mörkum. Á Íslandi hefur blessunarlega sjaldan verið mikið um verulegt atvinnuleysi fyrr en tiltölulega nýlega. Verkefni næsta kjörtímabils er að vinna bug á langtímaatvinnuleysi með því að skapa sem mestan fjölda starfa og tryggja fulla atvinnu. Næg verkefni blasa við í okkar samfélagi og sem betur fer vex nýsköpun og grænum störfum ásmegin í atvinnulífinu, þökk sé meðal annars opinberum efnahagshvötum. Við þurfum að beita ríkisfjármálunum á næstu árum til þess að koma hagkerfinu upp í fulla atvinnu. Þannig spólum við okkur upp úr kórónukreppunni og komum sterkari til baka.

Óásættanlegt atvinnustig

Verkefni vinstrafólks á næstu árum eru eðli málsins samkvæmt margþætt og þar er barátta gegn eigna- og tekjuójöfnuði veigamikil. Þar hefur þróunin verið í rétta átt síðustu árin. Ekki síst vegna skeleggrar baráttu verkafólks fyrir launahækkunum og vegna umbóta ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á skattkerfinu. Það sem helst vantar upp á er að tryggja mikið fleirum rétt til að taka þátt í atvinnulífinu. Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við atvinnuleysi í þeim mæli sem nú er.

Kári Gautason skipar fjórða sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Lágmarksbirgðir verði alltaf til í landinu

Skapti Hallgrímsson skrifar
10. nóvember 2022 | kl. 13:40

Mikil vonbrigði með ráðherraskipan

Skapti Hallgrímsson skrifar
30. nóvember 2021 | kl. 14:00

Enginn ráðherra úr Norðausturkjördæmi

Skapti Hallgrímsson skrifar
28. nóvember 2021 | kl. 13:18

Erindi Birgis í HA: Búið að kjósa og hvað nú?

Skapti Hallgrímsson skrifar
29. september 2021 | kl. 11:20

Kosningaþátttaka á Akureyri var 79,33%

Skapti Hallgrímsson skrifar
27. september 2021 | kl. 11:26

Þjóðin hafnar öfgum – vill stöðugleika

Skapti Hallgrímsson skrifar
26. september 2021 | kl. 22:50