Fara í efni
Umræðan

Upplýsingamiðstöðin verður áfram í Hofi

Samningurinn undirritaður. F.v. Katrín Káradóttir, eigandi Kistu, Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri MAk, Pétur Ólafsson hafnarstjóri og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Mynd: Kristján Kristjánsson/MAk

„Það skiptir máli að geta veitt ferðafólki góðar upplýsingar um það mikla framboð á þjónustu og viðburðum sem stendur til boða hér á Akureyri og það gerum við með því að reka í sameiningu upplýsingamiðstöð,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, en samningur um áframhaldandi rekstur upplýsingarmiðstöðvar í Hofi var undirritaður í vikunni.

Það hefur verið mikil aðsókn í þessa þjónustu af ferðamönnum síðastliðin ár

Samningurinn var undirritaður til þriggja ára, segir í fréttatilkynningu. Að rekstrinum standa Akureyrarbær, Hafnasamlag Norðurlands, Menningarfélag Akureyrar og verslunin Kista í Hofi. Upplýsingaþjónustan er starfrækt á tímabilinu 1. apríl – 30. september ár hvert. Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, fagnar áframhaldandi samningum. „Það hefur verið mikil aðsókn í þessa þjónustu af ferðamönnum síðastliðin ár og við sjáum skýrt að þörfin er til staðar. Við höfum heyrt frá ferðaþjónustuaðilum að þjónustan reynist afar vel og það er okkar upplifun að almenn ánægja sé hjá ferðamönnum um þá þjónustu sem er veitt,“ segir Eva Hrund.

Pétur Ólafsson hafnarstjóri tekur í sama streng. „Það er mikilvægt fyrir Hafnasamlagið að farþegar skemmtiferðaskipa eigi kost á upplýsingagjöf sem veitt er auglit til auglits um Akureyri og nágrenni eftir að í land er komið og er ég er afar ánægður með fyrirkomulagið,“ segir Pétur.

 

Mikill fjöldi ferðamanna kemur með skemmtiferðaskipum, en fyrsta stopp þeirra er oft í Hofi. Mynd: SNÆ

Hafnasamlag Norðurlands og Akureyrarbær leggja fjárframlög til rekstursins. Menningarfélag Akureyrar mun, sem áður, sjá um að hýsa starfsemina innan veggja Hofs ásamt því að sjá um starfsmannamál. Verslunin Kista, sem er með rekstur við hlið upplýsingamiðstöðvarinnar, leggur til aðstoð við upplýsingagjöf þegar þess er þörf. 

Upplýsingamiðstöðin hefur opnað í ár, en hún opnar ár hvert þann 1. apríl. 

Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Þór Karls skrifar
30. apríl 2025 | kl. 06:00

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 16:00

Bjánarnir úti á landi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 12:53

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Ásthildur Sturludóttir skrifar
11. apríl 2025 | kl. 17:00

Hörmungarástand við Lundargötu

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
11. apríl 2025 | kl. 10:45

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis á erindi við þig

Pétur Þór Jónasson og Inga Bára Ragnarsdóttir skrifa
08. apríl 2025 | kl. 11:45