Fara í efni
Menning

Þrettándagleði Þórs til áratuga – MYNDIR

Hlaðin brenna á Þórsvellinum við Hvannavelli um 1960. Maðurinn uppi á bátnum sem ber í tunnusúluna er Hilmar Gíslason. Annar frá vinstri, maðurinn sem ber í kranann, er Tryggvi Gestsson. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

6. janúar – Þrettándagleði Þórs

Íþróttafélagið Þór hefur staðið fyrir áramótabrennu síðan áramótin 1914-15. Fram til ársins 1961 var brennan á Gleráreyrum en hefur frá 1970 hefur verið haldin árlega á félagssvæði Þórs með örfáum undantekningum.

Í Sögu Akureyrar segir: „... í ársbyrjun 1961 báru eld að risastórum bálkesti sem risinn var á Þórsvellinum. ... Svo þyrptust að álfar, tröll og púkar, syngjandi og dansandi í flöktandi skininu frá bálinu. Á undan álfaskaranum komu konungur og drottning akandi á skrautlegum sleða sem dreginn var af hvítum hesti en ökumaðurinn var klæddur litklæðum. Settust svo konungur og drottning í hásæti sitt og fylgdust með gleðinni.“

Í Jónsbók – Fundarblað íþróttafjelagsins Þór Oddeyri – skrifar formaður félagsins 14. janúar 1917:

Brennu hjelt Þór á gamlárskvöld nefnd var kosin til að safna í brennuna, og sjá um það. Það voru dugnaðar menn sem þetta gerðu. Margir gáfu mikið af rusli til brennunnar. Tryggvi Helgason gaf staur, og 50 aura fyrir olíu. Það var vel gert af prívatmanni.

Á gamlársdag þegar verið var að reisa brennuna voru margir saman komnir, og þar á meðal Jón Hjaltalín Brennuvargur og Skáldaspillir var þar líka þó enginn sæi hann greyið-það ber ekki mikið á honum. Jón Hjaltalín hafði orðið og segir; Brennan hefur aldrei verið eins há 13 m upp úr jörðu. Það er okkur að þakka. Í fyrra höfðum við staur sem við keyptum hjá Ásgeiri en í hittifyrra höfðum við rána af Túliníusi - Bravó.

Áramótafögnuðurinn vatt upp á sig og varð að álfadansi árið 1926. Árið 1935 varð til þrettándagleði með svipuðu sniði og tíðkast hefur síðan með kóngi, drottningu, púkum, álfum, tröllum og alls kyns furðuverum að ógleymdum jólasveinunum, sem koma og skemmta fólki með söngvum og dansi.

Mikill undirbúningur lá að baki áramótahátíðinni. Útvega þurfti fólk í ótal hlutverk furðuskepna og á árum áður voru dansar æfðir í íþróttahúsinu við Laugargötu, þrisvar í viku frá því í október.

Meðfylgjandi myndir eru úr safni Minjasafnsins á Akureyri, Gísli Ólafsson tók sumar en aðrar eru úr safni Dags.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri.

Undirbúningur þrettándaskemmtunar Þórs á Óseyri um 1960.

Álfakóngur og drottning; Eiríkur Stefánsson og Erla Hólmsteinsdóttir.