Fara í efni
Menning

Leikmenn ÍA og KA spilltu afmælinu

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, fékk fráleitt þá afmælisgjöf á Skaganum sem hann hafði óskað sér. Hér er hann ásamt aðstoðarmönnum sínum, Michael Charpentier Kjeldsen og Steingrími Erni Eiðssyni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hallgrímur Jónasson þjálfari knattspyrnuliðs KA fagnar 39 ára afmæli í dag og átti sér án efa þá ósk heitasta að fá sigur á Skagamönnum í Bestu deildinni í afmælisgjöf. Akurnesingar voru þó ekki í neinu gjafastuði þegar þeir tóku á móti KA-mönnum á Skaganum heldur unnu 3:0.

Úrslitin á Akranesi urðu til þess að liðin höfðu sætaskipti í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. ÍA fór upp í 10. sæti en KA niður í það 11. og næst neðsta.

Sigur FH á Val (3:0) í kvöld gerði það síðan að verkum að KA er í neðsta sæti að fimm leikjum loknum. Þrjú lið eru með fjögur stig: FH var neðst með eitt, en fór upp í 10. sæti, Afturelding er í 11. sæti og KA neðst, með lakasta markatölu þessara þriggja.

Skagamenn klárir í slaginn

Fyrirfram mátti reikna með miklum bardaga á Akranesi, í ljósi stöðu liðanna. Bæði höfðu unnið einn leik og Skagamenn steinlágu 5:0 fyrir KR í síðasta leik. Þeir byrjuðu hinsvegar sannarlega af miklum krafti í dag því boltinn söng í netinu hjá KA eftir aðeins 65 sekúndur.

  • Þegar föst fyrirgjöf – eða skot – kom að KA-markinu frá vinstri sló Steinþór markvörður boltann út í teig þar sem Jón Gísli Eyland kom á fleygiferð, algjörlega óvaldaður, og skoraði með viðstöðulausu þrumuskoti.

Ekki var hægt að hugsa sér verri byrjun en KA-menn héldu ró sinni og voru að mestu með boltann fyrstu 15 mínútur leiksins án þess þó að valda heimamönnum einhverjum vandræðum.

Jafnvel má segja að KA-strákarnir hafi verið full rólegir; strax varð nefnilega ljóst að Akurnesingar voru í miklu meiri bardagahug en gestirnir. Léku fast, voru jafnvel grófir og KA-menn voru fljótlega farnir að pirra sig á dómaranum. Hann hefði vissulega mátt taka harðar á heimamönnum en einu réttu viðbrögð KA-strákanna hefðu verið að taka hressilega á móti andstæðingunum. Leikmenn ganga eins langt og dómarinn leyfir – það er gömul saga og ný.

Vinnum – alveg sama hvernig

Dagsskipun þjálfara ÍA var væntanlega: vinnum leikinn, alveg sama hvernig við förum að því. Ekki kæmi á óvart þótt þjálfarateymi KA hafi gefið ámóta skipun í aðdraganda leiksins, en hún skilaði sér ekki til allra leikmanna.

  • Á 18. mínútu komu Akurnesingar sér í enn betri stöðu þegar skoruðu aftur. Þar var Viktor Jónsson á ferð, sendi boltann í netið hjá KA úr markteignum eftir fyrirgjöf Alberts Hafsteinssonar frá hægri. Skagamenn unnu boltann af KA langt úti á velli og komu sér allt of auðveldlega í þetta góða færi.

Eftir markið breyttist lítið: KA var með boltann en Skagamenn héldu sig að mestu aftarlega á vellinum og vörðust grimmilega. Þrátt fyrir þetta átti KA ekkert skot á markrammann í fyrri hálfleik en ÍA fjögur.

Sama uppskrift

Seinni hálfleikurinn var álíka og hinn fyrri; KA-menn voru meira og minna með boltann en ÍA varðist. Heimamenn höfðu lítinn áhuga á að fara fram fyrir miðju, og segja má að í dag hafi hið fornkveðna sannast: Ekki er nóg að vera mikið með boltann, það sem skiptir máli er hvað gert er við hann.

Á lokamínútunum voru KA-menn loks nálægt því að skora, fyrst skallaði Bjarni Aðalsteinsson naumlega framhjá eftir horn og síðan varði Árni Marinó skalla frá Viðari Erni Kjartanssyni af stuttu færi eftir fyrirgjöf.

  • KA-strákarnir lögðu allt í sölurnar til þess að skora undir lokin og það nýttu Akurnesingar sér. Náðu skyndisókn þegar komið var í uppbótartíma og Viktor Jónsson gerði annað mark sitt og þriðja mark ÍA.

KA er í neðsta sæti sem fyrr segir. Liðið hefur fengið á sig 14 mörk í fimm leikjum sem er að sjálfsögðu afleitt og mikið áhyggjuefni. KA getur betur og Hallgrímur þjálfari, sá góði drengur, átti sannarlega skilið aðra afmælisgjöf en þá sem liðið færði honum í dag.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Næstu leikir KA í deildinni:

Sunnudag 11. maí:
KA – Breiðablik

Sunnudag 18. maí:
ÍBV – KA

Laugardag 24. maí:
KA – Afturelding

Fimmtudag 29. maí:
Fram – KA