Fara í efni
Mannlíf

Langþráður sigur Þórs/KA á Blikum – MYNDIR

Leikmenn Þórs/KA fagna fyrsta marki leiksins sem Hulda Ósk Jónsdóttir gerði eftir tæpan hálftíma. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason

Þór/KA vann frábæran 2:0 sigur á Breiðabliki í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. Hulda Ósk Jónsdóttir og Sandra María Jessen gerðu mörk Þórs/KA, hvort í sínum hálfleik.

Leikurinn fór fram í Boganum vegna slæmra vallaraðstæðna á Þórsvelli en slæmt veður hefur verið á Akureyri í dag. Jafnræði var með liðum framan af í leiknum. Blikar voru meira með boltann en heimakonur fengu hættulegri færi.

_ _ _

1:0

Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA yfir á 28. mínútu leiksins. Eftir að leikmaður Breiðabliks hafði verið dæmdur rangstæður tók Agnes Birta aukaspyrnuna hratt og átti sendingu á Söndru Maríu á vinstri kantinum. Sandra gerði vel og kom boltanum yfir vörn gestanna. Þar var Hulda Ósk mætt á ferðinni og skoraði með frábæru skoti.

_ _ _

Varnarleikur Þórs/KA í leiknum var til fyrirmyndar og hélt liðið öflugum leikmönnum eins og Öglu Maríu Albertsdóttur og Katrínu Ásbjörnsdóttur algjörlega í skefjum. Liðið hefur einungis fengið á sig tvö mörk í upphafi móts. Dominique Jaylin Randle spilaði í stöðu hægri bakvarðar í dag og átti góðan leik.

_ _ _

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur og voru mun meira með boltann. Þórs/KA liðið varðist þó áfram vel. En eftir því sem leið á leikinn þyngdist pressa Blikanna og fékk liðið færi til að jafna. Lið Þórs/KA reyndi að beita skyndisóknum en fékk ekki mörg opin færi. Heimakonur virkuðu þreyttar undir lokin en þrátt fyrir það gerði Jóhann Kristinn Gunnarsson ekki skiptingar og hélt sig við byrjunarliðið.

_ _ _

2:0

Á 93. mínútu skoraði Sandra María Jessen annað mark leiksins og gerði um leið út um hann. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir vann baráttu á miðjunni, átti góðan sprett upp miðjan völlinn og sendi boltann inn fyrir vörnina á Söndru Maríu sem skoraði af öryggi. Hennar fjórða mark í fjórum leikjum í sumar.

Sandra María hleypir af skoti í leiknum. Sandra hefur spilað vel í sumar og er hún markahæsti leikmaður deildarinnar með fjögur mörk.

_ _ _

Lokatölur 2:0 fyrir Þór/KA og var sigurinn verðskuldaður. Liðið hefur nú unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni, þar af tvo leiki gegn liðum sem spáð hefur verið ofar en Þór/KA.

Þessi sigur var sérstaklega sætur í ljósi þess að Þórs/KA liðinu hefur gengið afar illa með Blikana undanfarin ár. Þetta var fyrsti sigur liðsins á Breiðabliki í deildinni síðan í júní 2018. Í 10 seinustu viðureignum liðanna í deildinni hafði Breiðablik unnið 7, gert tvö jafntefli og var markatalan 34:7 fyrir Breiðablik.

Þór/KA á útileik gegn Þrótti í næstu umferð eftir viku. Liðið getur með sigri þar stimplað sig af alvöru inn í toppbaráttuna í deildinni.