Fara í efni
Mannlíf

Andrea Ýr og Heiðar Davíð klúbbmeistarar GA

Verðlaunahafar meistaramóts GA á lokahófi mótsins í gærkvöld. Mynd: gagolf.is.

Fjögurra daga meistaramóti Golfklúbbs Akureyrar lauk í gær. Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Heiðar Davíð Bragason eru klúbbmeistarar GA í meistaraflokki.

Keppni í meistaraflokki karla var spennandi og lauk með þriggja holu umspili á milli Heiðars Davíðs og Örvars Samúelssonar, að því er fram kemur í frétt á vef GA. Heiðar Davíð hafði þar betur, en báðir léku þeir hringina fjóra á 302 höggum, eða 18 yfir pari. Heiðar Davíð var með jafnara skor yfir keppnisdagana fjóra (75-73-75-79). Örvar átti tvo hringi betri en þann besta hjá Heiðari Davíð, en svo einnig tvo lakari seinni tvo dagana (72-70-80-80). 

Andrea Ýr Ásmundsdóttir hafði mikla yfirburði í meistaraflokki kvenna og lauk leik með 40 högga forystu á næstu konu. Andrea lék hringina fjóra á 16 yfir pari, samtals 300 höggum (73-73-78-76), en Lana Sif Harley varð önnur á 56 yfir pari.

Það var ekki aðeins í meistaraflokki karla sem þurfti umspil því úrslit réðust einnig í umspili í 1. flokki karla og 2. flokki kvenna. Nándarverðlaun voru veitt á laugardeginum fyrir þann kylfing sem náði næst holu í upphafshöggi á 18. holu. Torfi Rafn Halldórsson vann þau verðlaun, en boltinn hans endaði 99 sm frá holu.

Mótinu lauk með lokahófi og verðlaunafhendingu þar sem um 80 manns komu saman og gerðu upp mótið. Nánari upplýsingar um mótið og alla verðlaunahafa er að finna á vef Golfklúbbs Akureyrar, gagolf.is.