Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta andlátið vegna Covid á SAk – erfið staða

Aldraður karlmaður með Covid-19 lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) á laugardaginn. Það er fyrsta dauðsfallið á sjúkrahúsinu vegna faraldursins. Nú eru tæplega 2.000 í einangrun í landshlutanum og níu inniliggjandi á SAk með Covid-19, enginn þeirra á gjörgæslu.

Um 60 starfsmenn sjúkrahússins eru frá vinnu vegna Covid og er það ein helsta áskorunin þessa dagana. „Það er dálítið púsluspil að raða þessu saman vegna þess hve margir eru úti. Við höfum þurft að draga úr valkvæðri þjónustu, biðjum fólk að koma ekki á bráðamóttöku nema það nauðsynlega þurfi – en ég legg áherslu á að við erum alls ekki að banna fólki að koma þangað og allir sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahúsið eru lagðir inn. Við sinnum allri nauðsynlegri þjónustu,“ sagði Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á SAk við Akureyri.net.

Erfið staða hjá HSN

Mikil fjölgun smita í landshlutanum hefur mikil áhrif á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. „Vaxandi fjöldi starfsmanna er frá vinnu vegna Covid eða 67 starfsmenn af 609, sem gerir 11% starfsmanna. Vísbendingar eru um að þetta hlutfall geti hækkað á næstu dögum. Nokkur fjöldi starfsmanna vinnur í vinnusóttkví B,“ segir í tilkynningu frá HSN.

„Staðan er sérstaklega þung á Húsavík og Akureyri og fer versnandi á Sauðárkróki, í Fjallabyggð og á Blönduósi.

Á Húsavík er hópsmit á hjúkrunar- og sjúkradeildum en þar eru sjö skjólstæðingar með virkt Covid smit.

Mikil aðsókn er í PCR sýnatökur á öllu Norðurlandi en í dag eru yfir 1400 sýni á áætlun og 75 hraðpróf.“

Fjarvera starfsmanna og mikið álag í sýnatökum valda því að forgangsraða getur þurft þjónustunni, segir í tilkynningunni. „Í heimahjúkrun þarf til að mynda að forgangsraða heimsóknum. Á heilsugæslustöðvum er áhersla lögð á bráðaþjónustu og fyrirséð er að við munum neyðast til að afbóka eitthvað af skráðum tímum. Bólusetningar eru áfram í forgangi og verða áður auglýstir bólusetningadagar óbreyttir.“