Fara í efni
Fréttir

KA vann Grindavík og fór í undanúrslit – MYNDIR

Birgir Baldvinsson fagnar innilega ásamt félögum sínum eftir að hann náði forystu fyrir KA, 1:0, í lok fyrri hálfleiks. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA komst í kvöld í undanúrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar, með því að sigra lið Grindavíkur 2:1 á heimavelli.

KA-menn hófu leikinn af miklum krafti og sóttu linnulítið fyrstu 20 mínúturnar, fengu til dæmis fimm hornspyrnur á fyrstu 10 mínútunum og alls 10 í fyrri hálfleiknum! Þær sköpuðu reyndar ekki verulegan usla en heimamenn áttu líka nokkur skot.

Leikurinn jafnaðist nokkuð eftir þessa 20 mínútna orrahríð en það var svo á lokasekúndum hálfleiksins sem vinstri bakvörðurinn Birgir Baldvinsson braut ísinn. Staðan 1:0 í hálfleik og Grindvíkingar gátu verið alsælir með að munurinn var ekki meiri.

Gestirnir jöfnuðu þegar Marko Vardic gerði stórglæsilegt mark 20 mín. fyrir leikslok en Jakob Snær Árnason tryggði KA sæti í undanúrslitum þegar hann gerði sigurmarkið. Þá voru aðeins tvær og hálf mínúta eftir af hefðbundnum 90 mín. leiktíma.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna 

_ _ _

LINNULÍTIL SÓKN
KA-menn ógnuðu marki Grindvíkinga hvað eftir annað framan af leik, iðulega björguðu gestirnir í horn en markvörður Grindvíkinga, Aron Dagur Birnuson – sem hóf ferilinn með KA – varði líka nokkrum sinnum mjög vel. Hér ver hann gott skot Harleys Willard (37) utan teigs eftir rúmar 10 mínútur.

_ _ _

DAUÐAFÆRI BJARNA
Litlu munaði að KA næði forystu á 34. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók aukaspyrnu við vinstra vítateigshornið, sendi boltann hárnákvæmt inn á markteig þar sem Bjarni Aðalsteinsson var algjörlega óvaldaður og skallaði að marki en Aron Dagur varði; var heppinn að boltinn kom nánast beint á hann en gerði engu að síður vel því skallinn var fastur og Bjarni nálægt markinu. Varnarmaður náði að spyrna boltanum í burtu eftir þessi góðu tilþrif markmannsins.

_ _ _

FYRSTA MARK BIRGIS MIKILVÆGT
Vinstri bakvörður KA, Birgir Baldvinsson, náði loks að brjóta ísinn á lokasekúndum fyrri hálfleiksins. Enn var Hallgrímur Mar á vinstri kantinum, sendi inn á teig þar sem varnarmaðurinn Bjarki Aðalsteinsson (4) og Harley Willard stukku upp saman, Bjarki náði að skalla en boltinn hrökk beint til Birgis sem lagði boltann fyrir sig og skoraði með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti vinstra megin úr markteignum. Þetta var fyrsta mark Birgis fyrir meistaraflokk KA og það kom aldeilis á mikilvægu augnabliki enda var gleði markaskorarans ósvikin þegar hann hljóp til fjörugs stuðningsmannahóps KA. Spyrnan var sú næst síðasta í hálfleiknum; Sigurður Þrastarson dómari flautaði hálfleikinn af strax eftir að Grindvíkingar tóku miðju. 

_ _ _

STÓRGLÆSILEGT JÖFNUNARMARK
Marko Vardic, framherji Grindvíkinga, blés lífi í frekar rólegan seinni hálfleik þegar rúmar 20 mínútur voru eftir með stórglæsilegu marki. Það kveikti vonarneista hjá gestunum sem Jakob Snær slökkti í lokin. Vardic fékk boltann nokkrum metrum fyrir utan miðjan vítateiginn, sneri Hallgrím Mar auðveldlega af sér og lét svo vaða með hægri fæti án nokkurs fyrirvara; skotið var sérlega vel heppnað og boltinn söng í netinu  efst í hægri horninu án þess að Kristijan Jajalo markvörður fengi nokkuð að gert.

_ _ _

ÁTTA GUL SPJÖLD
Ekkert var gefið eftir í leiknum enda sæti í undanúrslitunum í húfi. Mönnum hljóp annað veifið kapp í kinn og Sigurður dómari þurfti að lyfta gula spjaldinu átta sinnum í leiknum; fjórir úr hvoru liði fengu áminningu. Markaskorarinn Birgir Baldvinsson fékk til dæmis að líta það gula þegar hann stöðvaði Óskar Örn Hauksson í hröðu upphlaupi þegar 10 mínútur voru eftir.

_ _ _

AFTUR TRYGGIR JAKOB SIGUR
Eins og í síðasta heimaleik á Íslandsmótinu rak Jakob Snær Árnason smiðshöggið á það verðuga verk að sigra andstæðinginn. Siglfirðingurinn knái kom af varamannabekknum gegn Fram á dögunum og gerði tvö mörk á lokamínútunum í 4:2 sigri og í kvöld var honum skipt inn á þegar 10 mínútur voru eftir og þegar vallarklukkan sýndi að tvær og hálf mínúta lifði leiks gerði Jakob sigurmarkið eftir góðan undirbúning Hallgríms Mar og Elfars Árna Aðalsteinssonar, sem kom inn á um leið og Jakob. Í aðdraganda marksins vildu KA-menn fá aukaspyrnu rétt utan vítateigs þegar þeim fannst brotið á Jakobi Snæ og fáeinum andartökum síðar fóru gestirnir fram á slíkt hið sama þegar þeir töldu brotið á Tómasi Orra Róbertssyni. Sigurður dómari lét óskirnar sem vind um eyru þjóta og 11 sekúndum eftir að heimamenn vildu fá aukaspyrnuna skoraði Jakob Snær! Hallgrímur Mar sendi boltann inn á teig á Elfar Árna, hann lagði boltann fyrir Jakob Snæ með fyrstu snertingu og skot Jakobs endaði í netinu með viðkomu í markmanninum.

_ _ _

ÓÞARFA BROT
Þegar komið var í uppbótartíma reyndi Óskar Örn að senda boltann á Símon Loga Thasapong á milli miðvarða KA en bæði Dusan Brkovic og Ívar Örn Árnason  komust fram fyrir hann áður en hætta skapaðist. Grindvíkingurinn ýtti þá á bak beggja með þeim afleiðinum að sá síðarnefndi skall harkalega á Jajalo markverði yst í teignum. Dæmt var brot á Grindvíkinginn og hann fékk gult spjald. Jajalo lá um stund og þurfti aðhlynningu en virtist ekki verða meint af.

_ _ _

GLEÐIN VIÐ VÖLD
Leikmenn og stuðningsmenn KA fögnuðu að vonum innilega að leikslokum enda liðið komið í undanúrslit bikarkeppninnar.