Fara í efni
Fréttir

KA-menn og Framarar í miklu skotstuði

Einar Rafn Eiðsson var markahæstur KA-manna gegn Fram í kvöld.

Sóknarleikurinn var í fyrirrúmi í kvöld þegar KA og Fram gerðu jafntefli, 34:34, í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þetta var fyrsti heimaleikur KA á tímabilinu.

Leikurinn var fjörugur og fín skemmtun; það er gott að gleðja áhorfendur með góðri skothríð á haustdögum, betri varnarleikur og markvarsla mega bíða betri tíma!

Rúnar Kárason, sem í sumar gekk til liðs við uppeldisfélag sitt, Fram, fór hamförum í KA-heimilinu í kvöld og gerði 14 mörk úr 18 skotum. Einar Rafn Eiðsson, sem hefur sem betur fer jafnað sig eftir slæm meiðsli í fyrravetur, fór fyrir sóknarleik KA-manna og gerði 10 mörk. 

KA byrjaði betur og náði fljótlega nokkurra marka forystu. Um miðjan fyrri hálfleik var staðan 11:7 en skjótt skipuðust veður í lofti og nokkrum mínútum síðar voru gestirnir komnir tveimur mörkum yfir. KA náði forystu á ný en staðan var 17:17 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var einnig mjög jafn, KA náði að vísu snemma þriggja marka forystu en Framarar voru ekki ýkja lengi að jafna og síðan var mjótt á munum allt til enda. Einar Rafn kom KA í 34:33 með marki úr víti en Arnar Snær Magnússon jafnaði. Framarar náði boltanum í síðustu sókn KA-manna, Rúnar Kárason skaut af eigin vallarhelmingi en Bruno Bernat varði auðveldlega. Þar með var leikurinn úti.

KA er með þrjú stig eftir tvo leiki.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 10 (2 víti), Ott Varik 8, Dagur Árni Heimisson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 3, Magnús Dagur Jónatansson 3, Jens Bragi Bergþórsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 8 – (21,6%), Óskar Þórarinsson 0.

Mörk Fram: Rúnar Kárason 14 (4 víti), Reynir Þór Stefánsson 7, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Arnar Snær Magnússon 2, Tryggvi Garðar Jónsson 2, Marko Coric 2, Kjartan Þór Júlíusson 1, Eiður Rafn Valsson 1, Ívar Logi Styrmisson 1.

Varin skot: Arnór Máni Daðason 5 (1 víti) – (20,8%), Breki Hrafn Árnason 3 (1 víti) – (16,7%).