Fara í efni
Fréttir

Áttu verk eftir Margréti og vilt lána á sýningu?

Akureyringurinn Margrét Jónsdóttir nam leirlist í listiðnaðarskólanum í Kolding. Hún snéri heim að námi loknu og stofnaði sitt eigið leirverkstæði í bílskúrnum hjá ömmu sinni árið 1985. Í rúm 20 ár hefur hún haft vinnustofu í Gránufélagsgötu 48 á Akureyri.
Í júní opnar Listasafnið á Akureyri yfirlitssýningu á verkum Margrétar Jónsdóttur, leirlistakonu, en hún fagnar 40 ára starfsafmæli um þessar mundir. Á sýningunni verða sýndir fjölbreyttir listmunir frá ferli Margrétar og leitar nú Listasafnið eftir samstarfi við almenning um lán á einstaka munum.
 
Samkvæmt upplýsingum frá Listasafninu mega munirnir vera af öllum stærðum og gerðum, jafnvel slitnir og skörðóttir ef svo ber undir. Munirnir verða settir saman í eina innsetningu og er ætlað að spanna tímabilið frá upphafi ferilsins til dagsins í dag.
 
Tekið verður við munum í móttöku Listasafnsins á opnunartíma safnsins milli kl 12 og 17 til og með 25. maí. Gerður verður lánssamningur við móttöku munanna. Sýningin mun standa yfir frá 5. júní til 28. september.
 
Margrét fagnar 40 ára starfsafmæli um þessar mundir en á starfsævinni hefur hún  unnið jöfnum höndum að gerð nytjalistar, stærri listmuna og listskreytinga. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.