Fara í efni
Súlur Vertical

Byrjun sem lofar góðu frá Þór – MYNDIR

Atli Þór Sindrason átti stórfína spretti í leiknum, var nokkrum sinnum nálægt því að skora og átti m.a. frábært skot snemma í seinni hálfleik - boltinn small þá í stönginni. Myndir: Ármann Hinrik

Þórsarar hófu keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu af miklum krafti í gærkvöldi þegar þeir fengu lið HK úr Kópavogi í heimsókn í Bogann. Niðurstaðan varð 1:1 jafntefli, eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi, en hefði allt verið með felldu hefði Þórsliðið farið með sigur af hólmi. 

Það voru vissulega vonbrigði fyrir Þórsara að vinna ekki og næla þar með í þrjú stig, en í ljósi frammistöðu liðsins í leiknum leyfi ég mér að segja: Meira svona, takk! 
_ _ _

ÓLAFS HILMARSSONAR MINNST

Bæði lið léku með sorgarbönd og einnar mínútu þögn var fyrir leikinn til minningar um Þórsarann Ólaf Gísla Hilmarsson sem lést langt fyrir aldur fram á dögunum, 58 ára að aldri.


_ _ _

  • Leikurinn hófst ótrúlega fjörlega svo ekki sé meira sagt. Aðeins 20 sekúndur voru liðnar þegar hinn eldfljóti Jóhann Þór Arnarsson komst í dauðafæri eftir misskilning í vörn Þórs en Aron Birkir Stefánsson, fyrirliði Þórs og markvörður, varði frábærlega frá honum. Nákvæmlega einni mínútu síðar voru Þórsarar í ákjósanlegu færi sem ekki nýttist.
  • HK tók svo forystu þegar aðeins fimm mínútur og 15 sekúndur voru liðnar af leiknum. Vilhelm Ottó var óheppinn að tapa boltanum úti á miðjum velli og eftir fyrirgjöf af hægri kanti fékk Dagur Orri Garðarsson boltann í vítateignum, lék á einn varnarmann og þrumaði boltanum upp í þaknetið, óverjandi fyrir Aron Birki.

BALDE JAFNAR

Ibrahima Balde jafnaði fyrir Þór með næst síðustu spyrnu fyrri hálfleiksins. Vilhelm Ottó sendi boltann inn í teig af vinstri kantinum, einu sinni sem oftar, Balde nýtti styrk sinn vel, tók boltann niður og lék á varnarmann áður en hann skoraði með föstu skoti. Strax og HK byrjaði á miðjunni eftir markið flautaði dómarinn til merkis um að leiktíminn væri liðinn.


_ _ _

ÞÓRSARAR BETRI

Markið í byrjun leiks var eins og blaut tuska í andlit Þórsara en eftir að þeir náðu áttum réðu þeir gangi mála að miklu leyti. Ógnuðu marki gestanna nokkrum sinnum í fyrri hálfleik og í þeim seinni hertu þeir enn tökin; í raun var ótrúlegt að mörkin yrðu ekki fleiri.

Seinni hálfleikur hófst reyndar með svipuðum hætti og sá fyrri: gestirnir fengu mjög gott tækifæri til að skora en slakt skot úr miðjum vítateig fór yfir markið. Eftir það tóku heimamenn við stjórninni.

Aron Ingi Magnússon, sem hér er með boltann í gær, er aðeins tvítugur að aldri en er einn lykilmanna í Þórsliðinu. Hann lék gríðarlega vel á undirbúningstímabilinu fyrir ári síðan, náði sér hins vegar ekki almennilega á strik á Íslandsmótinu en virðist í fantaformi í ár og lék vel í gær. Lengst til vinstri er Þórsarinn í HK-liðinu, Aron Kristófer Lárusson sem gekk til liðs við Kópavogsliðið í vetur. Mynd: Ármann Hinrik

Spennandi leikmenn! Atli Þór Sindrason, til vinstri, var síógnandi á vinstri kantinum hjá Þór. Hann er aðeins 18 ára. Unglingalandsliðsmaðurinn Einar Freyr Halldórsson, til hægri, er aðeins 16 ára en hefur þegar unnið sér fast sæti í Þórsliðinu; stórefnilegur leikmaður þar á ferð. Myndir: Ármann Hinrik

ENN EITT FÆRIÐ

Hægri útherjinn Clement Bayiha skallar boltann fyrir mark HK, Atli Þór Sindrason kom aðvífandi að fjærstönginni og var aðeins hársbreidd frá því að ná til boltans. Þarna hefði Atli Þór líklega skorað hefði hann notað einu númeri stærra af skóm!


_ _ _

  • Atli Þór fékk úrvals færi til að skora þegar 10 mín. voru liðnar af seinni hálfleik. Varnartröllið Ragnar Óli Ragnarsson átti þá frábæra sendingu utan af velli, yfir varnarmann, en í stað þess að skjóta strax tók Atli Þór boltann niður og missti hann aftur fyrir endamörk.
  • Aðeins þremur mínútum síðar var Atli Þór aftur á ferðinni; fékk boltann á vinstri kanti, lék innar á völlinn og lét vaða á markið frá vítateigshorninu. Skotið var stórglæsilegt en boltinn small í stönginni upp við samskeytin.

FRÁBÆR MARKVARSLA Í LOKIN

Nokkrum mínútum fyrir leikslok munaði minnstu að Ibrahima Balde tryggði Þór sigur. Eftir glæsilega sendingu Atla Þórs komst Balde í dauðafæri en Arnar Freyr markvörður HK varði skot hans úr miðjum vítateig með tilþrifum; náði að slæma hendi í boltann og Þórsarar fengu hornspyrnu sem ekkert varð úr.

Títtnefndur Atli Þór átti svo gott skot yst úr vítateignum í blálokin en boltinn smaug rétt framhjá stönginni.


_ _ _

Leikur Þórs lofaði mjög góðu fyrir sumarið sem fyrr segir. Liðið virkar heilsteypt og mun samstilltara en við upphaf Íslandsmótsins fyrir sléttu ári. Mjög skemmtileg blanda magnaðra stráka sem uppaldir eru í Þór og öflugra aðkomumanna.

  • Vörnin var örugg nær allan tíman, miðjumennirnir góðir og sóknartríóið ógnaði marki gestanna linnulítið ásamt sókndjörfu miðjutríóinu. Aftastur var fyrirliðinn Aron Birkir markvörður, öryggið uppmálað.
  • Orri Sigurjónsson sneri heim á ný í vetur og byrjaði afar vel sem miðvörður, mikill fengu í Orra eins og vænta mátti. Hann getur bæði leikið í vörn og á miðjunni.
  • Ibrahima Balde, leikmaðurinn stóri og stæðilegi sem kom frá Vestra, er feykilegur liðsstyrkur. Hann er erfiður viðureignar; sókndjarfur miðjumaður, hefur mjög gott auga fyrir spili og fullyrða má að tilkoma hans gefi leik liðsins nýja vídd.
  • Með Balde á miðjunni eru Aron Ingi Magnússon, tvítugur reynslubolti, og hinn 16 ára Einar Freyr Halldórsson. Ótrúlega þroskaður leikmaður þar á ferð, fullur sjálfstrausts.
  • Atli Þór Sindrason, 18 ára, hefur vakið athygli í vor og lék afar vel á vinstri kantinum, hægra megin var Clement Bayiha, eldfljótur leikmaður sem náði sér einna síst á strik, og fremstur var hinn kraftmikli Sigfús Fannar Gunnarsson.
  • Breiddin er mikil í leikmannahópnum. Framherjinn Rafael Victor er meiddur, unglingurinn Sverrir Páll Ingason einnig, og á meðal varamanna í gær var Yann Emmanuel Affi, miðvörður frá Fílabeinsströndinni sem er nýkominn til félagsins. Hann lék síðast með stórliði Bate Borisov í Hvíta-Rússlandi og er sagður afbragðs leikmaður. Fleiri mætti nefna; Ingimar Kristjánsson og Kristófer Kristjánsson, sem mikið hafa leikið síðustu ár, kom til dæmis inná í gær.

Leikskýrslan

Í gær: Þórsarar léku vel en jafntefli í fyrsta leik