Fara í efni
Skógarböðin

Alex með Íslandsmet og fékk silfur á EM

Alex Cambray Orrason lengst til vinstri á verðlaunapallinum í Pilsen í dag. Mynd af vef Kraftlyftingasambands Íslands.

KA-maðurinn Alex Cambray Orrason varð annar í hnébeygju í dag á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði. Hann hlaut því silfurverðlaun í greininni. 

EM fer fram í borginni Pilsen í Tékklandi og Alex keppti í -93 kg opnum flokki.

Á vef Kraftlyftingasambands Íslands (KRAFT) segir að KA-maðurinn hafi átt „geggjaðan beygjudag“. Hann byrjaði á því að lyfta 327,5 kg, tók næst 345 kg og í þriðju beygju lyfti hann 357,5 kg sem er 10 kg bæting á hans eigin Íslandsmeti. „Þessi lyfta tryggði honum silfur í hnébeygju í feykisterkum flokki.“

Bekkpressan var spennandi, fyrstu tvær lyfturnar gengu ekki sem skyldi en Alex fór upp með  202,5 kg í þriðju og síðustu lyftunni.

„Réttstöðulyftan byrjaði vel með 260 kg í fyrstu lyftu. Kviðdómur snéri við annarri lyftu í ógilda en Alex massaði 275 kílóin í þriðju lyftu,“ segir á vef KRAFT.

Alex lyfti samtals 835 kg sem gerði það að verkum að hann lenti í 4. sæti í samanlögðu í þyngdarflokknum. Á vef KRAFT segir að Alex og sá lenti í þriðja sæti hafi jafn lyft jafn miklu samanlagt en hinn (Slóvakinn Peter Novak) reyndist léttari við vigtun og 3. sætið er því hans.

MEÐ OG ÁN BÚNAÐAR

  • Munurinn á klassískum kraftlyftingum og kraftlyftingum með búnaði er sá að í þeim klassísku má ekki notast við neinn aukabúnað. Aðeins má nota hnéhólka sem ekki er hægt að herða og vafninga fyrir úlnlið. EM í Pilsen er í kraftlyftingum með búnaði þar sem nota má bekkpressuboli og stálbrækur, einnig hnévafninga sem hægt er að herða að eins og með frönskum rennilás.