Fara í efni
Safnkosturinn

Þór/KA mætir FHL á Reyðarfirði í dag

Margrét Árnadóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir (13) í siðasta leik Þórs/KA í deildinni, gegn FH í Boganum um síðustu helgi. Mynd: Ármann Hinrik

Þór/KA mætir FHL á útivelli í dag í 5. umferð efstu deildar kvenna, Bestu deildarinnar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í efstu deild og raunar í Íslandsmóti í meistaraflokki enda er FHL sem slíkt ungt félag og á sínu fyrsta ári í efstu deild.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 5. umferð
    Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði kl. 18
    FHL - Þór/KA

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð2 Sport.

Þótt Þór/KA og FHL mætist nú í fyrsta skipti í efstu deild hafa lið að austan áður spilað í efstu deild, á þeim tíma þegar hún hét einfaldlega 1. deild. Þetta var rifjað upp í Íþróttavikunni, sem birtist í byrjun hverrar viku á Akureyri.net. Þar segir:

Í nokkur skipti voru lið frá Akureyri og Austurlandi samtímis í efstu deild. Lið frá Akureyri hafa því mætt liðum af Austurlandi í efstu deild kvenna 18 sinnum í efstu deild. Þar af voru átta leikir 1984 þegar Þór og KA spiluðu með Hetti og Súlunni í B-riðli 1. deildar. Tíu leikir fóru fram í efstu deild milli Þróttar úr Neskaupstað og Hattar annars vegar og Þórs og ÍBA hins vegar á tíunda áratugnum.

  • 1984 - Höttur frá Egilsstöðum og Súlan frá Stöðvarfirði léku í 1. deild kvenna og voru með Þór og KA í B-riðli deildarinnar. Þór vann riðilinn og fór í úrslitaleik Íslandsmótsins, en tapaði 1-4 fyrir ÍA.
  • 1991 - Þróttur úr Neskaupstað spilaði í 1. deild ásamt Þór og KA.
  • 1992 - Þróttur N. og Höttur bæði í efstu deild ásamt Þór.
  • 1993 - Þróttur N. í efstu deild ásamt ÍBA, sameiginlegu liði Akureyrarfélaganna.
  • 1994 - Höttur frá Egilsstöðum í efstu deild, en ekkert lið frá Akureyri.
  • 2025 - FHL, sem samanstendur úr Fjarðabyggð, Hetti og Leikni, en Fjarðabyggðarfélagið samanstendur af Þrótti úr Neskaupstað, Austra á Eskifirði og Val frá Reyðarfirði.