Fara í efni
Menntamál

Hver var Steindór? Af hverju Steindórshagi?

SÖFNIN OKKAR – 73

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Þá er komið að Steindórshaga, götunni í Hagahverfinu sem kennd er við Steindór Steindórsson (1902-1997). Steindór fæddist á Möðruvöllum en ólst upp á einum bæjanna hinu megin við Hörgánna, Hlöðum í Hörgárdal og kenndi sig alltaf við þann bæ.

Flesti tengja Steindór við náttúrufræði enda lærði hann þau fræði og stundaði margvislegar rannsóknir á þeim vettvangi. Hann er líka oftast kynntur þannig. Aðrir tengja hann við Menntaskólann á Akureyri, þar sem hann kenndi í fjölda ára eða frá 1930 allt til 1966 er hann varð þar skólameistari. Hann var skólameistari til 1972.

Enn aðrir tengja Steindór við bækur og tímarit s.s. Landið þitt Ísland, Heima er best, Vegahandbókina, Vestur-íslenskar æviskrár, Ferðabók Eggert og Bjarna eða Akureyri: Höfuðborg hins bjarta norðurs og þannig mætti telja áfram. Hann var líka í fjölmörgum félögum s.s. Ferðafélagi Akureyrar, Skógræktarfélagi Eyfirðinga og Ræktunarfélagi Norðurlands og var formaður sumra þeirra.

Það eru líklega færri sem tengja Steindór við bæjarstjórn og Alþingi, það hefur einhvern veginn fallið í skuggann. Ekki vegna þess að hann skilaði ekki góðu verki heldur gerði hann svo margt annað. Steindór var bæjarfulltrúi á Akureyri 1946-1958 og landskjörinn alþingismaður Ísfirðinga 1959 og landskjörinn varaþingmaður Akureyringa 1947.

Sem bæjarfulltrúi var Steindór í nokkrum nefndum. Hann átti sæti í bókasafnsnefnd mest allan tímann sem hann var bæjarfulltrúi og skrifaði margar af fundargerðunum nefndarinnar á þeim tíma. Steindór hafði sérstaka og auðþekkta rithönd en að sama skapi er ekki alltaf auðvelt að ráða í hana. Skjal dagsins kemur einmitt úr gjörðabók bókasafnsnefndar 1875-1982 og er hluti fundargerðar 19. september 1947. Fundargerðin er rituð af Steindóri.

Á umræddum fundi bókasafnsnefndar var fjallað um kaup bæjarins á 2. hæð hússins nr 81 A við Hafnarstræti til afnota fyrir bókasafn bæjarins. Þá var Amtsbókasafnið í Barnaskólahúsinu (Hafnarstræti 53) en í október 1948 var það opnað í Hafnarstræti 81. Bókasafnið var flutt á núverandi stað árið 1968.