Fara í efni
Menntamál

„Ég kveð sátt og held glöð út í lífið“

Síðasti vinnudagurinn. Þórunn Ingólfsdóttir og Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja. Gestur kvaddi Þórunni fyrir hönd fyrirtækisins. Myndir: samherji.is

Þórunn Ingólfsdóttir hefur starfað hjá fyrirtækjum neðst á Oddeyri stærstan hluta starfsævinnar, lengst af hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og Samherja við Fiskitanga. Hún er orðin 71 árs, lét af störfum í fiskvinnsluhúsi ÚA um mánaðamótin og segist kveðja afskaplega sátt. Nú taki við nýr kafli í lífinu. Spjall við Þórunni er að finna á vef Samherja.

„Ég kem úr Skorradal í Borgarfirði og flutti norður 1974. Ég ákvað einn daginn að sækja um vinnu í súkkulaðiverksmiðjunni Lindu á Akureyri og fékk. Til að gera nokkuð langa sögu stutta, hef ég að mestu verið hérna fyrir norðan. Það má segja að vinnan hafi leitt mig norður, með jákvæðum formerkjum,“ segir Þórunn spurð um tilurð þess að sveitastelpa úr Skorradalnum fluttist norður í land.

Stórir vinnustaðir

Eftir nokkur ár í Lindu flutti Þórunn sig neðar á Eyrina; byrjaði sem fastráðinn starfsmaður hjá Niðursuðuverksmiðju K. Jónsson 2. apríl 1984 „og hef ekki yfirgefið Fiskitangann, þótt vinnuveitendurnir hafi verið fleiri, rækjuverksmiðjan Strýta, Útgerðarfélag Akureyringa og nú síðast Samherji. Þetta voru og eru stórir vinnustaðir, þannig að ég hef átt því láni að fagna að hafa kynnst ansi mörgum í gegnum vinnuna.“

Þórunn nýtur þess að ganga á fjöll. Hér er hún í Króatíu árið 2003.

Þórunn segir að sér hafi liðið vel á Fiskitanganum en satt best að segja ekki dottið í hug á sínum tíma að starfsvettvangur hennar yrði svo lengi þar. „Hérna hefur mér liðið vel, enda næg og stöðug vinna. Ég hef alla tíð unnið mikið og finnst yfirleitt gaman í vinnunni, sérstaklega þegar upp koma tarnir. Slíkt var algengara á árum áður, núna getur fólk yfirleitt gengið út frá stöðugum vinnutíma.“

Réð sjálf starfslokum

„Nei, nei, það var enginn þrýstingur frá vinnuveitandanum um að hætta, ég hafði frjálsar hendur um starfslok,“ segir hún. „Um áramótin tók ég ákvörðun um að setja punktinn með vorinu, þegar sólin er að hækka á lofti og náttúran öll að lifna við. Mér fannst það betri og skynsamlegri tími en haustið, þegar dagarnir eru styttri. Lífið er ekki bara vinna, ég er orðin 71 árs og heppin að heilsan er góð. Ég er mikið fyrir hreyfingu og útivist og er með ýmis plön í kollinum, Austurríki hefur til dæmis alltaf heillað mig, enda stórfenglegt að stunda fjallgöngur í Ölpunum í góðra vina hópi. Núna er þessum kafla í lífi mínu sem sagt lokið og við tekur sá næsti. Ég kveð ÚA og Samherja sátt og held glöð út í lífið,“ segir Þórunn Ingólfsdóttir.