Fara í efni
Landsbankahúsið við Ráðhústorg

Silfurverðlaun á HM – Unnar markahæstur

Íshokkílandslið karla með silfurverðlaunin í 2. deild B á Heimsmeistaramótinu. Myndin er fengin af vef SA.

Karlalandslið Íslands í íshokkí vann silfurverðlaun í 2. deild B á Heimsmeistaramótinu í íshokkí sem lauk um helgina. Unnar Hafberg Rúnarsson var annar af tveimur markahæstu mönnum mótsins, skotaði sex mörk.

Íslenska liðið, með 15 Akureyringa í leikmannahópnum og nokkra í starfsliðinu einni, vann öruggan sigur á gestgjöfum Nýja-Sjálands í lokaleiknum á laugardagsmorguninn, 5-1. Strax í fyrsta leikhluta skoraði íslenska liðið fjögur mörk og kláraði síðan leikinn af öryggi. Akureyringar sáu um að skora fjögur af fimm mörkum liðsins í lokaleiknum. Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði tvö mörk, Halldór Skúlason og Jóhann Már Leifsson eitt hvor. Jóhann Már, Baltasar Hjálmarsson, Matthías Már Stefánsson, Uni Blöndal, Hafþór Andri Sigrúnarson og Gunnar Arason áttu allir eina stoðsendingu hver. Unnar var valinn maður leiksins úr röðum íslenska liðsins.

Íslenska liðið í upphafi móts. Mynd: ÍHÍ.

Þegar kom að lokaleiknum var ljóst að gullið var ekki lengur innan seilingar og var leikurinn því barátta um silfur- og bronsverðlaun. Fyrr um nóttina höfðu Georgíumenn tryggt sér gullið með stórsigri liði Tælendinga, 15-1. Íslenska liðið vann fjóra leiki af fimm og endaði í 2. sæti með 12 stig, tveimur stigum á eftir Georgíumönnum sem nú færast upp í 2. deild A. Í frétt á vef Íshokkísambandsins segir að Georgíumenn hafi komið „á óvart og ljóst að þar innanborðs er leikmenn sem koma frá Rússlandi“.

Um frammistöðu liðsins segir einnig í frétt ÍHÍ: „Heilt yfir var frammistaða liðsins umfram væntingar. Bæði er liðið ungt en mikil kynslóðaskipti hafa verið að ganga yfir síðustu ár.“ Einnig að þjálfarateymið, Martin Struzinski og Rúnar Rúnarsson, hafi náð vel til leikmanna og ljóst að þessi hópur sé tilbúinn í næsta skref, að vinna sig upp um styrkleikaflokk í næstu atlögu. 

  • Leikir Íslands
    Ísland - Georgía 0-4
    Ísland - Bulgaría 8-4
    Ísland - Tævan 2-1
    Ísland - Tæland 6-3
    Ísland - Nýja-Sjáland 5-1

Nokkrir af leikmönnum Skautafélags Akureyrar voru ofarlega á listum yfir skoruð mörk, stoðsendingar og fleiri tölfræðiþætti, samanber upplýsingar á tölfræðivef mótsins.

  • Unnar Hafberg Rúnarsson var annar af tveimur markahæstu mönnum mótsins. Unnar skoraði sex mörk í fimm leikjum og var jafn Georgíumanninum Makar Nikishanin. Unnar var jafnframt valinn besti leikmaður íslenska liðsins í mótinu.
  • Jóhann Már Leifsson var jafn þremur öðrum í 8.-11. sæti á markalistanum, en Jóhann skoraði fjögur mörk. Jóhann Már var einnig ofarlega á lista yfir fjölda stoðsendinga, átti fimm stoðsendingar og var í 9.-13. sæti.
  • Að samanlögðum mörkum og stoðsendingum var Unnar í 5. sæti með tíu stig, sex mörk og fjórar stoðsedningar. Jóhann Már Leifsson var í 7. sæti með fjögur mörk og fimm stoðsendingar.
  • Uni Blöndal var efstur á lista yfir hlutfall unninna dómarakasta (Faceoff), það er þegar dómari hefur leik að nýju eftir stopp með því að sleppa pökknum og einn leikmaður úr hvoru liði reynir að vinna pökkinn. Uni vann 31 dómarakast af 45, eða 68,89%. Jóhann Már Leifsson var í 4. sæti yfir fjölda unninna dómarakasta, en hann vann 50 af 94, eða 53,19%. Heiðar Gauti Jóhannsson var tíundi á þeim lista og Uni Blöndal í 12. sæti.
  • Helgi Ívarsson var í 4. sæti yfir hlutvall varinna skota með 91,96%, eða 103 varin skot af 112.

Eins og áður hefur komið fram fór mótið fram í Dunedin á Nýja-Sjálandi og því um langt og strangt ferðalag. Mögulega hafði það eitthvað með úrslitin í fyrsta leiknum að gera, en eftir tap gegn Georgíu í fyrsta leik komu fjórir sigrar. Mótinu lauk á laugardagsmorguninn og lendir hópurinn í Keflavík fyrir hádegi í dag.

Upplýsingar um mótið, leiki Íslands og tölfræðina má finna á vef mótsins á IIHF.com og á vef Íshokkísambands Íslands.