Fara í efni
Hús dagsins

KA - Breiðablik í deild og Þór/KA - KR í bikar

Margrét Árnadóttir í sögulegum deildarleik Þórs/KA gegn KR sumarið 2020 – Ívar Örn Árnason þakkar Blikum fyrir leikinn á Greifavelli KA í fyrrasumar og Myndir: Skapti Hallgrímsson

Tvö af knattspyrnuliðum bæjarins leika á heimavelli í dag; KA tekur á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks klukkan 17:30 í Bestu deildinni og Þór/KA mætir KR í bikarkeppni kvenna kl. 13.00

Þetta er fyrsti leikur Þórs/KA í bikarkeppninni, Mjólkurbikarnum. Liðin í Bestu deildinni koma inn í keppnina í 16 liða úrslitum og bætast í hóp sex liða sem hafa unnið sig áfram eftir fyrstu tvær umferðir keppninnar. KR-ingar unnu sig upp úr 2. deild í fyrrahaust og leika nú í næstefstu deild, Lengjudeildinni.

  • Bikarkeppni kvenna í knattspyrnu (Mjólkurbikarinn), 16 liða úrslit
    Boginn kl. 13
    Þór/KA - KR

Viðureign KA og Breiðabliks er í 6. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins.

Eftir leiki gærdagsins er Vestri á toppi deildarinnar með 13 stig eftir sex leiki en KR, Víkingur og Breiðablik eru öll með 10 stig, KR að sex leikjum loknum, Víkingar og Blikar eftir fimm leiki. KA er í neðsta sætinu með fjögur stig, jafn mörg og FH, en með lakari markatölu. Með sigri í dag  gætu KA-menn komist upp í níunda sæti.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 6. umferð
    KA-völlur (Greifavöllurinn) kl. 17:30
    KA - Breiðablik

KA og Breiðablik mættust tvisvar á Íslandsmótinu í fyrra og Kópavogsliðið hafði betur í bæði skiptin; vann 2:1 heima og 3:2 á Greifavelli KA. Þá áttust við í Meistarakeppni KSÍ í lok mars, sem Íslands- og bikarmeistarar. Blikar unnu einnig þann leik, 3:1.


„MARGRÉTARLEIKURINN“ 2020

Þór/KA og KR mættust síðast á Akureyri sumarið 2022, þegar KR lék í Bestu deildinni. Þá varð jafntefli, 3:3, en næst síðasti deildarleikur liðanna á Akureyri er mörgum mjög eftirminnilegur vegna framlags Margrétar Árnadóttur. Sú viðureign fór fram á Þórsvellinum 28. júlí árið 2020.

  • Karen María Sigurgeirsdóttir fór meidd af velli á 55. mínútu og Margrét leysti hana af hólmi. 
  • Þór/KA hafði fengið aukaspyrnu á vinstri kantinum en hún var ekki tekin fyrr en eftir að Margrét kom inn á. Jakobína Hjörvarsdóttir sendi fyrir markið og Margrét skoraði –  með fyrstu snertingu við boltann.
  • Þór/KA fékk víti á 77. mín. þegar Margrét reyndi að senda boltann fyrir markið en hann small í hendi KR-ings innan vítateigs.
  • Margrét ætlaði taka vítaspyrnuna en Sveinn Arnarsson dómari tók þá eftir því að hún var með eyrnarlokka, áminnti Margréti með gulu spjaldi og sendi hana af velli til að taka af sér skrautið.
  • Margrét hugðist koma strax inná til að taka vítið en hún varð að bíða utan vallar þannig að Arna Sif Ásgrímsdóttir hljóp í skarðið og skoraði úr vítinu.
  • „Ég var nátt­úr­lega ekki ánægð með sjálfa mig að hafa gleymt að taka [eyrnalokkana] úr mér. Þó vil ég meina að þetta hafi verið skrifað í ský­in því ég ætlaði að skjóta í hornið sem markmaður­inn fór í. Arna Sif þurfti að taka vítið fyr­ir mig og skaut í hitt hornið. Við get­um al­veg þakkað dóm­ar­an­um fyr­ir að hafa gripið í taum­ana,“ sagði við Margrét við mbl.is eftir leikinn.