Fara í efni
Hjólreiðar

Afleit frammistaða og tap – vonandi slys

FH-ingar fagna einu markanna í Boganum dag. Myndir: Ármann Hinrik

Þór/KA tapaði 3:0 fyrir FH á heimavelli í dag í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Að loknum fjórum leikjum er Þór/KA í sjötta sæti með sex stig, vann tvo fyrstu leikina en hefur nú tapað tveimur í röð. FH er hins vegar jafnt Breiðabliki með 10 stig í efsta sætinu.

Á upphafsmínútunum benti ekkert til annars en að Stelpurnar okkar í Þór/KA myndu hreinlega valta yfir gestina.

  • Sandra María Jessen, markadrottning Íslandsmótsins í fyrra, og besti leikmaður mótsins, fékk dauðafæri eftir aðeins 65 sekúndur; Margrét Árnadóttir átti þá snilldarsendingu fram á Söndru sem komst ein inn fyrir vörnina en Aldís markvörður varði fast skot hennar frábærlega. Sandra skorar líklega úr 9 af hverjum 10 svona færum en þetta reyndist því miður ekki hennar dagur frekar en liðsfélaganna.
  • Þegar tæpar þrjár mínútur voru búnar var Hulda Ósk Jónsdóttir nálægt því að koma Þór/KA yfir. Hún fékk boltann á hægri kantinum, komst inn á teig og skaut með vinstra fæti; skotið var gott en boltinn fór hárfínt framhjá fjærstönginni.
  • Þegar vallarklukkan sýndi að 10 mínútur voru frá því dómarinn flautaði til leiks fékk Þór/KA þriðja góða færið. Boltinn var sendur inn á markteig frá hægri, Margrét Árnadóttir var óvölduð og skallaði að marki en Aldís varði.

Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH var afar örugg í öllum aðgerðum í dag. Hún byrjaði á því að verja frábærlega frá Söndru Maríu Jessen eftir rúma mínútu. Mark þá hefði líklega gjörbreytt gangi máli.  Mynd: Ármann Hinrik

Eftir þessa ótrúlegu byrjun gerðist lítið þar til á 22. mínútu að gestirnir tóku óvænt forystuna. Valgerður Ósk Valsdóttir skoraði þá úr miðjum vítateig, hún gerði vel en frá sjónarhóli Þórs/KA var verkefnið alltof auðvelt. Og markið algerlega gegn gangi leiksins.

Ekki liðu nema fjórar mínútur þar til gestirnir skoruðu aftur. Þar var Berglind Freyja Hlynsdóttir að verki og aftur var vörnin mjög illa á verði.

Hafi fyrra markið verið sem blaut tuska í andlit leikmanna Þórs/KA virkaði það seinna sem hnefahögg. Stuttu eftir markið fékk FH algjörlegat dauðafæri eftir slæm mistök og annað örskömmu síðar.

Allur vindur virtist úr heimaliðinu og ekki kom verulega á óvart þegar Elísa Lana Sigurjónsdóttir gerði þriðja mark gestanna á 38. mín., enn eftir klaufagang í vörninni.

Þrjú mörk á rúmum stundarfjórðungi staðreynd og tvö dauðafæri að auki. Stórundarlegt eftir kraftmikla byrjun Þórs/KA.

FH-ingar tryggðu sér í raun sigurinn með mörkunum í fyrri hálfleik því leikmenn Þórs/KA sáu aldrei til sólar. Með góðum vilja má segja að liðið hafi örlítið braggast í seinni hálfleik en þó ekki  þannig að það ætti skilið stig í verðlaun. Liðinu gekk skár að halda boltanum, sótti töluvert á lokakaflanum en ógnaði marki FH varla að ráði.

Langt er síðan Þór/KA hefur leikið jafn illa á heimavelli í deildinni, allar léku stelpurnar undir getu og frammistaðan hlýtur að mega teljast slys. Ekki er þó ástæða til að gleyma leiknum sem fyrst, eins og stundum er tekið til orða; þvert á móti er ástæða til að fara vel yfir þessar 90 mínútur og læra sem mest af þeim því frammistaðan var afleit.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni