Fara í efni
Evrópukeppni í handbolta

Þórsarar taka á móti HK í fyrsta leik í dag

Leikmenn Þórs fagna eftir að þeir sigruðu KA í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins seint í marsmánuði. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar hefja í dag leik í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, þegar HK úr Kópavogi kemur í heimsókn í Bogann. Leikurinn hefst klukkan 18.00.

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Þórs frá því í fyrrasumar og ljóst að margir bíða spenntir eftir að sjá liðið nú þegar alvaran tekur við að loknu löngu undirbúningstímabili.

Upphitun er boðuð í Hamri frá kl. 16.30, þar sem þjálfarar beggja liða verða með töflufund; Sigurður Höskuldsson þjálfari Þórs og Hermann Hreiðarsson sem stýrir liði gestanna. Ársmiðar verða seldir og fram fer treyjulottó þar sem hægt verður að vinna áritaðar treyjur Þórsaranna  ungu sem eru á mála hjá FC Midtjylland í Danmörku, Egils Orra Arnarssonar og Sigurðar Jökuls Ingvasonar sem báðir voru seldir danska liðinu á síðasta ári.

Fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn liða Lengjudeildarinnar spá Þórsliðinu sjötta sæti í sumar. Spá þeirra var kunngjörð á kynningarfundi deildarinnar nýverið. Vefurinn fotbolti.net fékk hins vegar fyrirliða og þjálfara til að spá í spilin og þar varð niðurstaðan sú að Þórsarar yrðu í fimmta sæti.

Efsta liðið vinnur sér rétt til keppni í Bestu deildinni næsta sumar en fjögur þau næstu fara í umspil um annað laust sæti í efstu deild.

  • Samkvæmt spá fótbolta.net verður röð efstu liða þessi: 1. Fylkir, 2. Keflavík, 3. HK, 4. Þróttur R., 5. Þór. 6. Njarðvík
  • Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna lítur svona út: 1. Fylkir, 2. Keflavík, 3. HK, 4. Þróttur R., 5. Njarðvík, 6. Þór

Vert er að rifja upp að á síðasta ári var Þórsurum spáð 2. sæti deildarinnar en þeir enduðu í 10. sæti.

Fimm leikir eru á dagskrá í dag í fyrstu umferð deildarinnar en sá sjötti og síðasti fer fram á morgun.

Nánar síðar í dag