Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Þór/KA auðveldlega áfram í bikarnum

Leikmenn Þórs/KA fagna fyrsta marki leiksins. Mynd: Ármann Hinrik.

Þór/KA vann öruggan sigur á liði KR í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna, Mjólkurbikarnum, í Boganum í dag. Lokatölur urðu 6-0 og eiginlega aldrei spurning um það hvort liðið yrði ofan á.

KR kom upp úr 2. deild fyrir yfirstandandi tímabil og hefur byrjað ágætlega í næstefstu deild, Lengjudeildinni. Það má því ef til vill tala um skyldusigur, en saga bikarkeppna segir auðvitað alls konar sögur um óvænt úrslit. Greinilegt var þó að leikmenn Þórs/KA ætluðu ekki að bjóða upp á neitt óvænt í dag, börðust vel og spiluðu vel frá byrjun. 

Fimm breytingar á byrjunarliðinu

Þrátt fyrir fimm breytingar á byrjunarliðinu hjá Þór/KA síðan í síðata leik hafði liðið nokkra yfirburði nær allan leikinn. Þór/KA lék erfiðan útileik í Íslandsmótinu á fimmtudagskvöld þannig að það var stutt hvíld hjá þeim sem byrjuðu báða leikina. Hópurinn bauð hins vegar upp á að hvíla leikmenn, auk þess sem meiðsli settu smá strik í reikninginn. KR var reyndar í sömu stöðu og Þór/KA því þær spiluðu einnig deildarleik á fimmtudagskvöld. KR gerði fjórar breytingar á sínu byrjunarliði frá jafnteflisleik gegn Keflavík á fimmtudag.

Hvíldartaktík þjálfara Þórs/KA virðist hafa heppnast einkar vel og gengið vel upp. Agnes Birta Stefánsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir, sem byrjuðu síðasta leik, voru utan hóps í dag. Harpa Jóhannsdóttir kom inn í markið í stað Jessicu Berlin. Sonja Björg Sigurðardóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir fóru á bekkinn og tvær af þeim reyndustu í liðinu, Sandra María Jessen og Hulda Björg Hannesdóttir, spiluðu aðeins fyrri hálfleikinn. Hulda Ósk kom svo reyndar inn og átti stoðsendinguna í öllum þremur mörkum liðsins í seinni hálfleiknum. Margrét Árnadóttir spilaði rúman klukkutíma. Það var því ungt lið sem kláraði leikinn fyrir Þór/KA og gerði það ágætlega. Varnarlínan var til dæmis skipuð stelpum sem fæddar eru 2005, 2006 og 2007.

Fimm mörk í tveimur leikjum

Sandra María Jessen skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum og Amalía Árnadóttir eitt. Emelía Ósk Krüger, Margrét Árnadóttir og Bríet Fjóla Bjarnadóttir bættu við þremur mörkum í seinni hálfleiknum. Þess má geta að þær Amalía, Emelía Ósk og Bríet Fjóla voru allar að skora sitt fyrsta mark í bikarkeppninni. Mörkin komu nokkuð jafnt og þétt allan leikinn, á 15., 27. og 38. mínútu í fyrri hálfleiknum og svo á 54., 64. og 87. mínútu í þeim seinni.

Sandra María Jessen skoraði þrennu í sigrinum á FHL fyrir austan á fimmtudag og tvö í dag. Fimm mörk í tveimur leikjum, en henni hefur gekk brösuglega að nýta færin í fyrstu fjórum deildarleikjunum í vor. Mætti ef til vill orða það svo að flóðgáttir hafi nú opnast.

Sandra María Jessen skorar sitt annað mark og þriðja mark Þórs/KA í leiknum. Mynd: Ármann Hinrik.

Þegar Emelía Ósk skoraði fimmta markið tilkynnti kynnir leiksins að Bríet Fjóla hefði skorað markið og tók skömmu seinna fram að Bríet Fjóla og Amalía hefðu báðar verið að skora í fyrsta skipti í Mjólkurbikarkeppninni. Það var svo leiðrétt og markið eignað Emelíu Ósk, en til að bjarga heiðri kynnisins tók Bríet Fjóla svo upp á því að skora sjötta markið þegar skammt var til leiksloka og bættist í hóp þeirra sem voru að skora sitt fyrsta bikarmark í meistaraflokki. 

Leikskýrslan

Meira um leikinn síðar í myndum Ármanns Hinriks.