Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Aron Einar áfram hjá Al-Gharafa í Katar

Aron Einar fagnar eftir að hann skoraði úr víti í 2:0 sigri á Dalvík í Lengjudeildinni 8. september í fyrra. Þetta var fyrsta mark Arons fyrir Þór - og gæti orðið það eina. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson, sem er nýorðinn 36 ára, hefur samið til eins árs í viðbót við Al-Gharafa í Katar. Því er ljóst að hann leikur ekki með Þór í sumar.

Aron var með Þór síðari hluta leiktíðarinnar í fyrra og upphaflega stóð til að hann yrði aftur með uppeldisfélaginu í sumar. Aron, sem lék með Al-Arabi í Katar frá 2019-2024, samdi síðan óvænt í haust við Al-Gharafi og nú er ljóst að hann verður áfram þar á bæ.

Vegna reglna um fjölda útlendinga hjá liðum í Katar var Aron einungis gjaldgengur með Al-Gharafa í Meistaradeild í Asíu en skv. nýja samningnum verður hann einnig í leikmannahópi félagsins í deildarkeppninni á næsta keppnistímabili.

Katarska félagið tilkynnti um nýjan samning Arons í dag. Þess má geta að Al-Gharafa sigraði Al-Khor 2:1 í dag í 16-liða úrslitum katörsku bikarkeppninnar, landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi var í byrjunarliðinu og lék allan tímann.