Fara í efni
Mannlíf

Viltu segja sögu þína og spila fyrir útvalda?

Akureyringurinn Ásgeir Ólafsson Lie hefur tekið upp 10 seríur af hlaðvarpsþættinum 10 bestu; alls hefur hann því sest 100 sinnum niður með viðmælanda í hljóðveri á Akureyri, því þátturinn er alltaf tekinn upp þar, og er hann orðinn einn sá vinsælasti í sínum flokki á landsvísu að sögn Ásgeirs.
 
Í tilefni tímamótanna – að hafa náð 100 þátta markinu –  bryddar Ásgeir upp á skemmtilegri nýjung: hann býður 10 manns að mæta í persónulegt spjall, sem ekki verður birt opinberlega, heldur til þess að viðkomandi eigi og geti spilað fyrir sína nánustu eða þá sem hann kýs.
 
„Dyggur hlustandi bað mig að taka upp viðtal við fjölskyldumeðlim í anda 10 bestu án tónlistarinnar. Ég varð við þeirri bón og endaði á að tala líka við hann sjálfan; tók sem sagt upp tvo þætti sem ekki voru birtir á rásinni minni og verða aldrei birtir þar. Þetta gekk svona rosalega vel og hugmynd hans frábær,“ segir Ásgeir.
 
„Ég býðst því til að gera heimildarþátt í anda 10 bestu, gegn sanngjörnu gjaldi, með eða án tónlistar, fólk ræður því. Spjall við fjölskyldumeðlim, sem í þessu tilfelli hélt upp á stórafmæli. Hann sagði sögu sína og þá bara fyrir sína nánustu til að heyra. Viðtalið varð persónulegra fyrir vikið þar sem hann nefndi fjölskyldumeðlimi á nafn í alls kyns sögum. Þáttunum tveimur var svo deilt í lokuðum hópi hjá fjölskyldunni og sló þetta svona svakalega í gegn.
 
Ásgeir bætir við: 
 
„Ég ætla því að bjóða í 10 upptökur fyrir ykkur ef þetta er eitthvað sem þið hefðuð áhuga á að skoða. Hafið bara samband ef ykkur dettur í hug að taka upp ykkur sjálf, eða senda einhvern magnaðan úr familíunni til að segja sögur sem fara bara til nánustu fjölskyldu.“
 
Áhugasamir geta sent Ásgeir póst á netfangið asgeirpodcast@gmail.com eða hringt í hann í síma 866 9066.