Fara í efni
Pistlar

Sjálfbær lífsstíll og sálfræðilegir þröskuldar

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig standi á því að þrátt fyrir þá þekkingu sem við höfum um áhrif athafna mannsins á náttúruna þá séum við svona treg að gera breytingar. Ég undanskil ekki sjálfa mig í þeim efnum.

Venjur eru eitthvað sem getur verið erfitt að breyta og stundum eru hagsmunir í húfi sem þýðir að breytingar muni hafa neikvæðar afleiðingar að minnsta kosti til skamms tíma. Neikvæð áhrif núverandi hegðunar koma hins vegar oft ekki fram fyrr en síðar.

Mér finnst mikilvægt að við höfum hugrekki að skoða eigin hegðun og lífsstíl af heiðarleika en jafnframt með sjálfsmildi. Það tekur tíma að innleiða breytingar og við þurfum að leyfa okkur að taka skrefin á okkar eigin hraða og í samhengi við okkar eigið líf.

Skrif norska fræðimannsins Per Espen Stokenes hafa hjálpað mér að skilja betur þá sálfræðilegu þröskulda sem koma oft í veg fyrir að við gerum breytingar í átt að umhverfisvænni lífsstíl. Stokeness er menntaður bæði í umhverfissálfræði og hagfræði og hefur því afar áhugaverða innsýn í hvernig bæði efnahagslegir hvatar og sálfræðilegir innri þröskuldar geta haft áhrif á hegðun. Hann dregur fram fimm ástæður sem skýringu á þeirri sálfræðilegu þversögn að þrátt fyrir að við þekkjum staðreyndir þá breytum við ekki endilega hegðun okkar í samræmi við þá þekkingu.

Fyrsti þröskuldurinn er hversu fjarlæg stóru umhverfismálin, eins og t.d. loftslagsbreytingar, eru okkar daglega lífi. Þau gleymast einfaldlega í amstri dagsins.

Annar þröskuldur tengist því hvernig orðræðan er oft í hálfgerðum heimsendastíl. Viðfangsefnið er svo stórt og óyfirstíganlegt að okkur fallast hendur.

Þriðji þröskuldurinn er að það er ósamræmi milli þekkingar og hegðunar. Við finnum að við erum ekki tilbúin að breyta tiltekinni hegðun og þess vegna ýtum við nýrri þekkingu til hliðar því það er óþægilegt að hugsa um þessar staðreyndir.

Fjórði þröskuldurinn tengist þeim þriðja að því leyti að ef þetta ósamræmi milli þekkingar og hegðunar fer að vera of óþægilegt þá förum við stundum að afneita vandanum. Neitum jafnvel að trúa staðreyndum.

Fimmti þröskuldurinn, og sá sem getur verið erfiðast að eiga við, er þegar tiltekin hegðun tengist okkar sjálfsmynd með svo sterkum hætti að við afneitum öllum upplýsingum sem samræmast ekki þessari sjálfsmynd og leitum í staðinn að upplýsingum sem að henta okkur betur, óháð því á hversu sterkur vísindalegur grunnur býr að baki þeim upplýsingum.

Þekking ein og sér dugi ekki til að vinna bug á þessum þröskuldum. Við þurfum að ná til fólks með öðrum hætti. Segja sögur, bjóða upp á valkosti sem hægt er að samþætta inn í daglegt líf án of mikillar fyrirhafnar, hampa góðum fyrirmyndum og hvetja hvort annað áfram með jákvæðum hætti frekar en með prédikunum.

Ég fjalla um þetta, og ýmislegt annað, í hlaðvarpinu Transformia – Sjálfsefling og samfélagsábyrgð, í sérstökum sóloþætti þar sem ég segi frá minni vegferð í átt að sjálfbærari lífsstíl með bæði heiðarleika og sjálfsmildi að leiðarljósi.

Smellið hér til að nálgast hlaðvarp Transformia:

Auður H. Ingólfsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Fimmtudagskvöld

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. maí 2024 | kl. 11:30

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30