Fara í efni
Pistlar

Kartöflur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 25

Ef lambalærinu og soðningunni sleppti voru mestar mætur á kartöflum á mínu heimili, altso nýjum íslenskum, en litlu neðar á þeim lista voru raunar radísur og rófur – og jafnvel gulrætur ef sumarið hafði verið með sem mestum ágætum.

En af rótarávöxtunum, eins og þeir hétu að hætti roskinna, var mesta lotningin borin fyrir kartöflum. Þar var kominn æðsti dómur haustsins. Tíðin var mæld í uppskerunni. En ef hún var góð og þaðan af betri, voru allir á vetur setjandi.

Ég man að Sigmundur afi tönnlaðist á því fram að jólum ef uppskeran hafði brugðist, en ljómaði þess heldur ef metið var slegið í magni og bragði, jafnvel áferð líka og útliti, en það var hægt að tala um kartöflur svo kvöldunum skipti.

Minningin af gamla manninum í Helgamagrastræti hverfist raunar um baksið á honum í bakgarðinum. Þá lá hann þar í græna vinnugallanum í vorhretinu og rakaði í rákir með berum lúkunum. Því natnin skipti mestu. Útsæðið færi ekki ofan í einhverjar uppskóflaðar rimar í hans garði. Það væri öðru nær.

Raunar var kartöflugarðurinn þeirra hjóna á neðri Brekkunni eins og akur yfir að líta. Þau voru uppgjafabændur af Ströndum norður, en höfðu ekki annað í sér en að halda akuryrkjunni áfram á eyfirsku lóðinni. Svo þar var ræktaður matur fyrir alla afkomendurna. Og fleiri til. Af því að sulturinn var alltaf yfirvofandi. Það var bakþankinn, samofinn óttanum, sjálfum vetrarbeygnum.

Ég fékk stundum að skottast með honum í kartöflugeymsluna í Gilinu í byrjun vikunnar. Það var mánudagssnattið. Þá rétti Sigrún amma karli sínum netapoka sem hann átti samviskumsamlega að fylla á úr köldu hólfinu í jarðbyrgi bæjarins.

Remman og rekjan situr enn í vitum. Og þess heldur þá geigurinn að ganga með honum inn eftir niðadimmum ganginum. En það lagaðist við brosið á ásjónu afa þegar fyrir lá að enn væri nóg til. Og myndi endast fram á sumar.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SKÍÐAFERÐIR

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00

Vaðlaskógur á 6. áratugnum

Sigurður Arnarson skrifar
08. maí 2024 | kl. 09:30