Fara í efni
Pistlar

Enn einn heimsendir

Eins og venjulega þá lifum við á viðsjárverðum tímum. Ekkert nýtt við það. Ef það er ekki mannskepnan að níðast á bræðrum sínum og systrum þá er náttúran með uppsteyt. Merkilegt nokk verða allir jafn hissa þegar einhverjum drulluháleistum með völd dettur í hug að ráðast inn í lönd eða dunda sér við að murka lífið úr einhverjum þjóðfélagshópum sem þeim er illa við eða hreinlega hata af ofstæki sem er lítið annað en alger geðsýki. Og svo virðist sem það eina sem hægt er að gera sé að mótmæla, setja reiðstatusa á feisbúkk og fara svo og kjósa enn og aftur sömu hálfvitana sem taka þátt í öllu ruglinu. Það reyndar kemur mér enn á óvart, sem er auðvitað heimskulegt, að fólk skuli aftur og aftur kjósa yfir sig þá sem fara verst með þá. Þangað leitar klárinn …

Með reglulegu millibili fyllist allt af heimsendakenningum og að við lifun núna á hinum síðustu tímum. Eins og maðurinn hefur gert í einhver þúsund ár. Síðastliðin um það bil 1500 ár hefur það verið gríðarlega vinsælt að túlka Opinberunarbók Jóhannesar sem heimsendaspá og þá er litið til þess að núna séu bræður að berjast og hungursneyðir og fleiri ömurlegir hlutir í gangi. Eins og það sé eitthvað nýtt! Hvenær hafa ekki verið nokkur stríð í gangi á jörðunni? Hvenær hefur ekki náttúran verið með uppsteyt, vegna þess eins að náttúran er lifandi afl sem byltir sér við og við, heilu flekarnir sem skilja að heimsálfur og jarðsvæði ekki að færast aðeins til? Og við Íslendingar, sem búum í landi sem liggur á einum slíkum flekaskiptum, verðum enn hissa, nokkurn veginn, þegar eitthvað gerist sem er ekki bara tiltölulega kyrrt og túristavænt tekur upp á því að ryðjast inn í bæi og þorp og spilla aðgengi að Bláa Lóninu. Sem er voðalegt fyrir eigendur þess sem verða af einhverjum gígantískum summum í pyngjuna. Við búum í landi andstæðna, lifandi jarðar og getum ekki leyft okkur að koma fram við þá jörð eins og þær bestíur sem við erum ótrúlega oft. Alveg eins og við getum ekki haldið áfram að koma fram við fólk með þeim tillitslausa hætti og hálfónýtt heilbrigðiskerfi gerir. Þar sem á geðdeildum eru ekki nógu margir geðlæknar, þar sem iðulega er komið fram við aldraða eins og það taki því ekki að sinna þeim almennilega, það sé hvort eð er svo stutt eftir. Um slíkt þekki ég alveg nógu mörg dæmi, bæði hvað varðar geðdeild og aldraða. Öryrkjar eru svo eitt af þessu sem um árið átti að taka á „ekki seinna en í gær“ en eins og með aldraða og geðfatlaða þá var ekkert að marka það heldur lá meira á að hagræða hlutunum fyrir þá sem fara í alvöru með völdin í landinu og eru í eilífu Matadorleik með bankana, lífeyrissjóðina, lánasjóði námsmanna fyrrverandi og henda á milli sín hlutabréfum og ríkisstofnunum eins og krakkar í fótbolta.

Og auðvitað veit ég að allt þetta hálfsamhengislausa nöldur skiptir engu máli, að ekkert breytist og allir halda áfram í sama hráskinnaleiknum. Það eina sem ég sjálfur hef trú á er að unga fólkið sem virðist loksins ætla að verða margfalt betur upplýst um alla skapaða hluti en við gamla spaðið, komi fram með breytingar, rísi úr viðjum vanans og fleyti okkur áfram inn í tíma skoðanaskipta án stríðs, pólitíkur án eiginhagsmunagæslu og virðingu gagnvart náttúrunni.

Í lokin, þó ég hafi nöldrað eitthvað út í þessa forundran fólks á eldgosum, þá tek ég fram að Grindvíkingar eiga alla mína samúð vegna þess sem nú dynur á þeim. Þar skiptir engu máli hvort einhver hafi orðið hissa eða ekki, þetta er hryllilegt fyrir margar fjölskyldur og (bara til að furða mig á einni nýlegri frétt) örugglega næstum því jafn slæmt og að fá ekki bjór í langri flugferð.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Heimsóknir og bæjarferðir

Jóhann Árelíuz skrifar
10. nóvember 2024 | kl. 13:30

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 13:15

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11