Fara í efni
Minningargreinar

Kristinn Páll Einarsson

Elsku pabbi lést eftir skammvinn veikindi á sjúkrahúsinu á Akureyri þann 22. mars síðastliðinn. Pabbi ólst upp í Reykjavík og einungis 15 ára gamall byrjaði hann í millilandasiglingum sem mótuðu líf hans. Ég hef oft hugsað um hversu ævintýraleg ungdómsárin hans hafi verið í samanburði við aðra unglinga, fyrr eða síðar. Áhugi hans á sjónum og útlandinu fylgdu honum allt hans líf.

Barneignir hjálpuðu eflaust til við það að hann sagði skilið við sjómennskuna og réði sig í lögregluna, fyrst í Reykjavík og síðan á Akureyri þar sem hann starfaði lengst af. Sjómennskan togaði samt alltaf í hann og hann átti eftir að fara ófáa túrana þegar tækifæri gáfust, bæði til að afla aukatekna og til að svala ævintýraþránni.

Hann var í lögreglunni í rúma fjóra áratugi og starfaði þar með mörgu góðu fólki. Manngæska er kannski orðið sem kemur upp í hugann við að lýsa pabba. Það fór honum vel að vera lögreglumaður, hann átti gott með að umgangast fólk í starfinu og þá kannski sér í lagi fólk sem hafði lent í einhverskonar vandræðum í lífinu. Allir voru jafningjar hjá pabba.

Pabbi var alltaf jákvæður, meira að segja þegar hann var orðinn veikur. Hann vildi ekki láta mikið hafa fyrir sér og setti aðra í fyrsta sæti. Núna er hann eflaust að hugsa með sér að það hafi nú verið óþarfi að standa í þessu jarðarfararumstangi fyrir hann í dag. Þeir sem þekktu pabba vita að hann sparaði ekki sögurnar og var spaugsamur, við sem sátum hjá honum undir það síðasta getum staðfest að hann hélt því áfram eins lengi og hann gat. Núna er hann eflaust að segja einhverjar gamansögur í góðra vina hóp.

Elsku pabbi minn, þakka þér fyrir að hafa verið góður faðir og afi. Þín verður sárt saknað en minningin lifir.

Halldór Sveinn Kristinsson

Árni Björn Árnason

Juan Ramón skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Höskuldur Þórhallsson skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Tinna og Telma skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Sigurður Hermannsson

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
07. maí 2024 | kl. 11:00