Fara í efni
Minningargreinar

Karólína Margrét Másdóttir

Þegar við kveðjum Kæju er margs að minnast. Við höfum þekkt hana lengi, unnum með henni í Lundarskóla og áttum með henni margar samverustundir utan skóla og vinnu. Kæja var skipulögð í kennslunni og umhyggjusöm gagnvart nemendum, lagði sig fram um að aðstoða þá og gaf sér einnig tíma utan kennslustunda til að sinna þeim. Umfram allt var hún samviskusöm, trú stærðfræðinni sinni helstu kennslugrein og yfirleitt með þeim síðustu sem yfirgaf skólann að loknum vinnudegi.

Kæja tók sig alltaf mátulega hátíðlega og í starfsmannahópnum var alltaf stutt í glensið. Hún sagði skemmtilegar sögur og brandara og lagði þannig sitt af mörkum til að gera starfið og lífið í skólanum sem ánægjulegast. Hún var mjög félagslynd og tók virkan þátt í skemmtunum starfsfólks og ekki var nú verra ef Stefán mætti með gítarinn.

Kæja var mikil fjölskyldumanneskja og fastir liðir voru mánu- og miðvikudagsmáltíðir með afkomendum. Þessar samverustundir skiptu hana miklu máli og hún lét þær ganga fyrir flestu öðru. Í baráttunni við illvígan sjúkdóm var Kæja æðrulaus og kvartaði ekki þó að á brattann væri að sækja og reyndi að halda sínu striki. Þegar aukaverkanir af lyfjum voru að hrjá hana og hún átti erfitt með að ganga mikið keypti hún sér hjól. Þetta var mjög lýsandi fyrir hana, alltaf lausnamiðuð. Hún stóð þannig meðan stætt var og naut aðstoðar sinnar samhentu fjölskyldu.

Á kveðjustund er okkur efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Kæju og að vinna með henni. Við þökkum vináttuna og geymum með okkur minninguna um skemmtilega og góða vinkonu.

Stefáni og fjölskyldu vottum við okkar dýpstu samúð.

Birna Margrét, Guðrún Brynja, Ingibjörg Eyjólfs., Helga Ragnheiður, Gunnar og Rósa

Árni Björn Árnason

Juan Ramón skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Höskuldur Þórhallsson skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Tinna og Telma skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Sigurður Hermannsson

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
07. maí 2024 | kl. 11:00