Jón Laxdal Halldórsson
Tréskór eru til að ganga á
en ekki til að troða öðrum um tær
þó má sparka í þeim
ef þörf krefur
og mæla fátt
Þannig orti Jón vinur minn Laxdal til Völu dóttur sinnar barnungrar.
Og þannig orti Jón ávallt alvarlegur og kíminn í senn.
Og þannig var hann.
Við Jón kynntumst um 10 ára aldurinn og lékum okkur saman síðan þá með mislöngum hléum. Eftir að Jón flutti langt útí sveit urðu leikstundir okkar stopulli. En í mörg ár deildum við vinnustofum og hittumst nánast daglega. Eftir margra ára samveru örlaði reyndar á því að við yrðum leiðir hvor á öðrum, því það var ekki alltaf fjör enda vorum við báðir þráir, þrjóskir og þverir og kannsi bara furðulegt hvað við áttum vel saman.
Heimskur
hef ég sporum stráð
á skyrhvítt gólf
og kysst þig
kl. 12
Þetta er annað kvæði úr annarri ljóðabók Jóns, þeirri stórgóðu „Stofuljóð“, en eftir Stofuljóðin tók Jón krappa beygju í listinni hætti mikið til að glíma við orðin og samhengi þeirra en sneri sér að myndlist sem hann kallaði reyndar líka ljóð.
Jón lagði stund á heimspeki og sér þess mikil merki í ljóðum hans og myndljóðum.
Allt sem Jón skapaði var ákaflega áferðarfallegt, enda fæddist hann með úrsmíðaputta og á stundum var hann svo iðinn, að þótt hann væri að vinna á örþunnan pappír horfði maður á listaverkastaflana hækka og þeim fjölga. Það var líf og yndi Jóns að skapa og pæla og svo hafði hann líka afskaplega gaman að því að skemmta sér og öðrum. Og þar vorum við svo sannarlega á sömu blaðsíðunni og hljómsveitin Norðanpiltar var fjör. Við félagarnir vorum fjarri því besta hljómsveit á norðurhveli, en við vorum kokhraustir og létum einsog við værum æðislegir og komumst upp með það. Það kom í ljós að Jón var ótrúlega flottur dansari og margir muna dansafrek hans einsog þegar hann dansaði ofan í opna gítartösku og sumir segja hann hafa lokað á eftir sér, eða þegar hann sveiflaði sér í gluggatjöldunum uppi í Café Karólínu, sveif útyfir svalirnar og til baka aftur, mættur í viðlagið einsog þetta hefði verið þaulæft.
Þannig var hann Jón
Handfylli
af myrkri.
Athvarf
eldfæra.
Jón var ákaflega nákvæmur í list sinni. 90° horn hjá honum var það réttasta horn sem um gat. Hann var einsog Charlie Watts sem hljóðveraupptökumenn sögðu að hefði verið taktvissari en „klikktrakkið“.
Heimspekileg nákvæmni, úrsmíðaputtar og kímni það voru verkfærin hans Jóns míns.
Þegar Jón ljómaði var allt ljómandi og mér dettur ekki í hug að minnast á það í minningargrein að hann átti það líka til að myrkva nágrennið þegar sá gállinn var á honum.
Minningin um Jón er trausti góði vinurinn leiftrandi, sem talaði stundum mikið og hló, snöggur til svars og lét aldrei taka frá sér síðasta orðið.
En nú er þessu ævintýri lokið.
Það sem maður kemur til með að sakna þín elsku vinur.
Alla, Vala, Brák, fjölskyldur og vinir við samhryggjumst öll en minningin um góðan dreng yljar.
Kristján Pétur Sigurðsson
(Ljóðin er úr ljóðabók Jóns Laxdal Stofuljóð )