Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Við kveðjum í dag fyrrverandi samstarfsfélaga og góðan félaga, hana Höllu Sólveigu eða Sollu eins og hún var alltaf kölluð.
Solla starfaði hjá Íslandsbanka í hartnær 40 ár, en hún hóf fyrst störf hjá Útvegsbankanum árið 1978.
Viðskiptavinir Sollu vildu engan hitta nema hana enda var hún með einstaka þjónustulund og tók öllum vel og með jákvæðu viðmóti. Það að hún fékk mest af heimaföndruðum gjöfum frá viðskiptavinum segir allt sem segja þarf.
Skipulag og samviskusemi einkenndi störf Sollu hjá bankanum og hún tók ávallt virkan þátt í félagsstarfi starfsmanna. Solla hafði góðan húmor og var einkar góður persónuleiki. Hún lætur eftir sig mikið ríkidæmi í börnunum sínum og barnabörnum, en Solla var mikil fjölskyldukona og undi sér best með sínu fólki.
Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Sollu og starfa með henni og sendum Val og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd samstarfsfélaga í útibúi Íslandsbanka á Akureyri,
Jón Birgir Guðmundsson og Ólöf Heiða Óskarsdóttir