Fara í efni
Minningargreinar

Björg Finnbogadóttir

Það var tilfinningarík stund þegar skeytið var lesið:

„Megi heill og hamingja fylgja ykkur öllum á Björgu EA 7 yfir höfin heim. Með kærri kveðju og miklu stolti. Björg Finnbogadóttir.“ Í fjarskanum fann Bella af einstöku næmi hvernig okkur var innanbrjósts þegar áhöfnin hélt skipi sínu til hafs frá Istanbúl. Guðmóðirin fylgdist með; sjómenn skilja – og vilja, bæði brjóstvörn og bakskjól. Á langri vegferð minni með fjölskyldunni hefur Bella alltaf verið nærri, en þegar hún sagði til sín gerði hún það af hugþekkri hógværð en samt var eftir tekið. Við drengirnir höfum oft fengið klapp á bakið þegar vel var gert en stundum fylgdi mikill þungi blíðu brosi. „Þið gætið að honum Máa mínum.“ Móðurhjartað var á sínum stað þótt hún vissi best að fáir menn eru meira sjálfbjarga, sjálfstæðari og áræðnari. Við Björg Finnbogadóttir áttum langa og yndislega samferð nærveru og fjarveru. Hún fylgdist grannt með í blíðu og stríðu og rann blóðið mjög til skyldunnar þegar spjótalögin voru hörðust. Hún þekkti sitt heimafólk sem fengið hafði skarpgeðja uppeldi í norðlensku veðurfari. Hún var kona fyrir sínu anddyri. Við fundum það þegar á reyndi. Bella átti langa og hrausta ævi og hafði aðeins stutta dvöl á sjúkrahúsi síðustu vikurnar. Þótt vita mætti að hverju drægi brá sól skjótt sumri og móða seig í augu við andlátsfregnina. Þá var gott að muna að um borð í Björgu EA 7 hangir í litlum virðulegum ramma lítið vers frá Bellu:

Þó að storma þyngi hreim
það mun litlu skipta
fylgi þér um hafið heim
happasæld og gifta.

Í Guðs friði,

Óskar Magnússon

Árni Björn Árnason

Juan Ramón skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Höskuldur Þórhallsson skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Tinna og Telma skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Sigurður Hermannsson

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
07. maí 2024 | kl. 11:00