Fara í efni
Menning

Valmar Väljaots tekur við Karlakórnum Heimi

Valmar Väljaots og Alexander Smári Edelstein á fyrstu æfingunni með Karlakórnum Heimi. Mynd: Facebook síða Heimis

„Karlakórinn Heimir er lagður af stað í nýja vegferð“, segir á Facebook síðu skagfirska karlakórsins, þar sem tilkynnt er að Valmar Väljaots hafi verið ráðinn stjórnandi kórsins um tíma. Valmar er organisti í Glerárkirkju og stjórnar þegar nokkrum kórum á Akureyri.

Mikið áfall var fyrir Heimi, aðstandendur og skagfirskt tónlistarlíf þegar fyrrum stjórnandi, Stefán Gíslason, varð bráðkvaddur á heimili sínu 17. október síðastliðinn. Stefán hafði stjórnað kórnum nær óslitið frá árinu 1985 þar sem hann bæði samdi og útsetti tónlist fyrir kórinn samhliða stjórninni.

Alexander Edelstein tekur við flyglinum

Valmar þekkjum við vel hérna megin við Tröllaskagann, en hann hefur verið áberandi í tónlistarlífinu, bæði sem kórstjórnandi, organisti, hljómsveitarmaður og undirleikari við ýmis tilefni. Hann fær með sér í verkefnið í Skagafirðinum, ungan og efnilegan píanóleikara til undirleiks með kórnum; Akureyringinn Alexander Smára Edelstein.

Karlakórinn Heimir ásamt Stefáni heitnum Gíslasyni stjórnanda og undirleikaranum, Tómasi Randall Higgerson. Mynd af heimasíðu kórsins.

Áramótatónleikar

Í tilkynningunni um nýjan kórstjóra og undirleikara á facebook síðu Heimis, segir einnig að stefnan sé sett á áramótatónleika í Miðgarði þann 30. des. næstkomandi. Það verða þá væntanlega fyrstu tónleikar kórsins undir nýrri stjórn.

Næstum því hundrað ára kór

Karlakórinn Heimir var stofnaður í desember árið 1927 og mun því fagna hundrað ára afmæli eftir fjögur ár. Kórinn hefur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum, bæði upp á sitt einsdæmi og með öðru tónlistarfólki í gegnum tíðina. Nýlega var kórinn hluti af tónlistarveislu sem slegið var til í tilefni af sjötugsafmæli Óskars Péturssonar, tenórsöngvara úr Álftagerði.