Fara í efni
Menning

Úr dagbókunum IV – Kirkjan brennur

Úr bókinni Arngrímur málari eftir Kristján Eldjárn. Myndin er í eigu Listasafns Íslands.

Hér birtist fjórða grein Unu Haraldsdóttur sagnfræðinema um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.

Gefum Unu orðið:

_ _ _ _

Áður en fjölskylda Sveins Þórarinssonar flutti til Akureyrar bjuggu þau á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem Sveinn var skrifari amtmanns. Þann 5. mars 1865 var stórhríð í sveitinni og um morguninn var ekki hægt að kveikja upp í ofninum inni í kirkjunni. Á þessum tíma var eldur borinn í þar til gerðu íláti milli ofna til að kveikja upp. Kolamoli eða neisti hefur líklega dottið á gólfið eftir að illa gekk að kveikja í ofninum og út frá því kviknaði í kirkjunni. Um klukkan 11 fór fólk að taka eftir eldinum en þá var orðið of seint að bjarga kirkjunni. Nokkrir menn fóru þó inn um brotna glugga og björguðu skírnarfonti, tveimur stjökum og tveimur bekkjum. Á innan við klukkustund var kirkjan brunnin til ösku.

Arngrímur Gíslason málari var staddur hjá Sveini á Möðruvöllum þennan dag. Þeir voru fínir vinir og Arngrímur kemur mikið við sögu í dagbókunum. Ein þekktasta mynd Arngríms er einmitt af kirkjubrunanum á Möðruvöllum sem hann teiknaði kvöldið og daginn eftir brunann. Kristján Eldjárn kallaði hana síðar fyrstu íslensku fréttamyndina. Sveinn minntist ekkert á að altaristafla kirkjunnar hefði bjargast en samkvæmt Benedikt Jónssyni á Auðnum bjargaði Arngrímur henni úr kirkjunni og tók hana með sér burt úr sveitinni. Hugsanlega var altaristaflan svo illa farin að hún var talin ónýt og Arngrímur mátti hirða hana. Sumir telja að altaristaflan hafi vakið áhuga Arngríms á að mála eftirmyndir og altaristöflur, sem urðu síðar það sem hann varð þekktastur fyrir. Vel getur verið að Arngrímur hafi gefið Sveini myndina af brunanum á Möðruvöllum því seinna gaf Friðrik sonur Sveins Listasafni Íslands hana.

Eftirfarandi dagbókarfærsla sýnir fyrstu skriflegu frásögn Sveins af brunanum en hann skrifaði svo ítarlegar um hann í kirkjubók Möðruvallaklausturskirkju. Næstu færslur sýna svo ástandið í sveitinni næstu daga og hvernig fólkið reyndi að bjarga því sem hægt var að bjarga úr kirkjunni. Havsteen amtmaður var vestur í Húnavatnssýslu þessa daga og Sveinn hélt honum upplýstum með bréfaskrifum. Eftir brunann fékk Möðruvallasókn að messa í Glæsibæ.

5. mars 1865, 1. sunnudagur í föstu

Norðan stórhríð. Um morgunin lagði Þorlákur hér í kirkjuofnin kl. 8. en þar hann ekki trekkti bar hann eldinn burt, kl. 11 sá hann reik úr kirkjunni. Þustum við þangað, og stóð turnin í loga, vóru brotnir gluggar á norðurhlið kirkjunnar en fyrir eldi og reik varð ekki öðru bjargað en skírnarfonti, 2. stjökum og 2. bekkjum. Kl. 12 var kirkjan brunnin til ösku. Þá þustu að menn úr sókninni til ónytis. Eg varð lasin af ofkælingu og áreynslu. Um nóttina voktum við Arngrímur og Sigurbjörn, og teiknaði Arngr. mynd af kirkjunni logandi.

Norðan stórhríð. Um morguninn lagði Þorlákur hér í kirkjuofninn kl. 8. en þar hann ekki trekkti bar hann eldinn burt, kl. 11 sá hann reyk úr kirkjunni. Þustum við þangað, og stóð turninn í loga, voru brotnir gluggar á norðurhlið kirkjunnar en fyrir eldi og reyk varð ekki öðru bjargað en skírnarfonti, 2. stjökum og 2. bekkjum. Kl. 12 var kirkjan brunnin til ösku. Þá þustu að menn úr sókninni til ónýtis. Ég varð lasin af ofkælingu og áreynslu. Um nóttina vöktum við Arngrímur og Sigurbjörn, og teiknaði Arngrímur mynd af kirkjunni logandi.

6. mars 1865

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg var lasin. Skrifaði amtm. vestur. Arngrímur fullkomnaði kirkjumyndina.

Sunnan frostgola og bjartviðri. Ég var lasinn. Skrifaði amtmanni vestur. Arngrímur fullkomnaði kirkjumyndina.

7. mars 1865

Sama veður. Eg sendi express til amtmanns vestur. Halldór á Hallgilsstoðum. Arngrímur fór útí Dal.

Sama veður. Ég sendi express til amtmanns vestur. Halldór á Hallgilsstöðum. Arngrímur fór út í Dal.

8.–11. mars 1865

Þessa daga var veður bjart og frost, og sat eg við skriptir fyrir amtið, og við umboðsreikninga mína m.fl. Hirti úr kirkjubrunanum hvað eg gat.

Þessa daga var veður bjart og frost, og sat ég við skriftir fyrir amtið, og við umboðsreikninga mína m.fl. Hirti úr kirkjubrunanum hvað ég gat.

12. mars 1865, 2. sunnudagur í föstu

Logn og blíðviðri, hér mannaumferð mikil. Eg fékk pilta hér til að tína saum, járn og kopar úr kirkjubrunanum.

Logn og blíðviðri, hér mannaumferð mikil. Ég fékk pilta hér til að tína saum, járn og kopar úr kirkjubrunanum.

13. mars 1865

Logn sólbráð og blíðviðri. Hér vóru allir sóknarmenn á fundi til að ræða um messur og kirkjumálefni við prest.

Logn sólbráð og blíðviðri. Hér voru allir sóknarmenn á fundi til að ræða um messur og kirkjumálefni við prest.