Fara í efni
Menning

Úr dagbókunum III – Barnaskóli í Nonnahúsi

Nonnahús. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri

Hér birtist þriðja grein Unu Haraldsdóttur sagnfræðinema um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Síðustu æviár Sveins einkenndust af mikilli fátækt og hann vann því ýmis störf til að afla tekna fyrir heimilið. Eitt af því var að reka lítinn barnaskóla í húsi sínu frá nóvember 1868. Tregt var um aðsókn og eitthvað virðist kennslan hafa vafist fyrir kennaranum fyrst um sinn og árangurinn ekki eins og til stóð. Ármann litli lærði hjá pabba sínum en gekk illa í deilingu sem olli Sveini greinilega hugarangri. Hér má sjá nokkrar færslur sem sýna upphaf skólans og hvernig börnunum gekk.

22. október 1868

Logn og blíðviðri. Eg skrifaði tilboð um að halda barnaskóla frá byrjun Nóvembermán. sendi það út í bæinn til undirskriptar þeirra er vildu nota það, fékk einga áskript, en fleyri töluðu um að koma til mín bornum sínum til kennslu. BT P. Magnúss. Eg hjó niður og saltaði kjöt mitt allt 3 skrokka. fékk um kvöldið BF Einari Asmundssyni og 1 skrokk 2ʉ að gjöf. Skrifaði BT læknis Eðvalds Johnsens í Kmh. seinasta bréf mitt með Herthu. Léði Fr. Reinholt Magazin 1866.

Logn og blíðviðri. Ég skrifaði tilboð um að halda barnaskóla frá byrjun nóvembermánaðar. Sendi það út í bæinn til undirskriftar þeirra sem vildu nota það, fékk enga áskrift, en fleiri töluðu um að koma til mín börnum sínum til kennslu. Bréf til P. Magnúss. Ég hjó niður og saltaði kjöt mitt allt 3 skrokka. Fékk um kvöldið bréf frá Einari Ásmundssyni og 1 skrokk 2ʉ að gjöf. Skrifaði bréf til læknis Eðvalds Johnsens í Kaupmannahöfn, seinasta bréf mitt með Herthu. Lánaði Fr. Reinholt Magasín 1866.

23. október 1868

Logn frost og blíðviðri. Eg hjó niður skrokkinn frá Einari og rakaði 2 gærur. Vertinn kom hér að tala um börn sín og skólann, og lofaði eg að taka þau 1. November. Eg gekk útí bæ að utvega borð, bekki og ofn í skólann. kom bréfum mínum til Havsteens. Níels austan póstur fór austur beið ekki lengur eptir sunnan pósti, sem ekki kemur enn.

Logn, frost og blíðviðri. Ég hjó niður skrokkinn frá Einari og rakaði 2 gærur. Veitingamaðurinn kom hér að tala um börn sín og skólann, og lofaði ég að taka þau 1. nóvember. Ég gekk út í bæ að útvega borð, bekki og ofn í skólann. Kom bréfum mínum til Havsteens. Níels austan póstur fór austur beið ekki lengur eftir sunnan pósti, sem ekki kemur enn.

1. nóvember 1868

Norðan stormur og hríð, kafald um tíma. Ekki messað. Eg lauk við að setja upp ofnin í Norðurstofunni og múraði kringum hann þar sem þurfti m.fl. Varð að skila rúmstæði til B. Jónssonar ritstjóra, og flutti því rúmföt mín úr austurstofu inn í kamers. Eg setti upp gardinu og lagfærði fleyra undirbjó barnaskólann sem byrja skal á morgun. Um kvöldið gekk eg til P. Johnsens.

Norðan stormur og hríð, kafald um tíma. Ekki messað. Ég lauk við að setja upp ofninn í norðurstofunni og múraði kringum hann þar sem þurfti m.fl. Varð að skila rúmstæði til B. Jónssonar ritstjóra, og flutti því rúmföt mín úr austurstofu inn í kamers. Ég setti upp gardínu og lagfærði fleira undirbjó barnaskólann sem byrja skal á morgun. Um kvöldið gekk ég til P. Johnsens.

2. nóvember 1868

Logn, frost og bjartviðri. Í dag byrjaði barnaskólinn hjá mér og komu nú til kennslu börn gestgjafans Amalia og Jens og Olafur Jónsson Stephánssonar og var Armann minn hið 4ða barn. Eg var við kennsluna í austurstofunni lengst af degi. Sigga timburmanns var hér í dag. Eg lét kaupa ½ Skp. Rúg ½ Skp. grjón 1ʉ kaffe.

Logn, frost og bjartviðri. Í dag byrjaði barnaskólinn hjá mér og komu nú til kennslu börn gestgjafans Amalía og Jens og Ólafur Jónsson Stefánssonar og var Ármann minn hið fjórða barn. Ég var við kennsluna í austurstofunni lengst af degi. Sigga timburmanns var hér í dag. Ég lét kaupa ½ Skp. rúg ½ Skp. grjón 1ʉ kaffi.


4. nóvember 1868 „Friðrik sonur minn 4 ára

Norðan kafald. Sömu börn komu á skólan gengur illa. Eg hafðist ekki annað að en að segja þeim til i 4 ½ tíma, og svo að skrifa forskriptir handa þeim.

Norðan kafald. Sömu börn komu í skólann gengur illa. Ég hafðist ekki annað að en að segja þeim til í 4 ½ tíma, og svo að skrifa forskriftir handa þeim.

6. nóvember 1868

Logn, frostlítið og gott veður. Sömu börn vóru á skólanum, fór þeim lítið fram, koma kl 10 og fara heim kl. 3. Eg var um kvöldið til háttatíma hjá Páli Johnsen að skrifa reikninga hans. Hann drakk sig fullan út á Bauk.

Logn, frostlítið og gott veður. Sömu börn voru í skólanum, fór þeim lítið fram, koma kl. 10 og fara heim kl. 3. Ég var um kvöldið til háttatíma hjá Páli Johnsen að skrifa reikninga hans. Hann drakk sig fullan út á Bauk.

14. desember 1868

Logn þýðt og blíðviðri, jörð snjólítil 5 börn á Skóla því Aðalsteinn Friðbjarnarson bættist við í dag. Páll Johnsen rólaði hingað til mín lasburða enn. Eg flutti skólaborð og bekki úr norðurstofu inní austurstofuna til að fá pláz handa bornum og spara eldivið í norðurstofu.

Logn, þíð og blíðviðri, jörð snjólítil. 5 börn á skóla því Aðalsteinn Friðbjarnarson bættist við í dag. Páll Johnsen rólaði hingað til mín lasburða enn. Ég flutti skólaborð og bekki úr norðurstofu inn í austurstofuna til að fá pláss handa bornum og spara eldivið í norðurstofu.

4. janúar 1869

Sunnan frostgola og bjartviðri. Barnaskólinn byrjaði aptur hjá mér, og nú börnin 8 með Armanni. Um kvöldið sat eg við að skrifa í skrifbækur og vitnisburðabækur m.fl. Um háttatíma fékk Björg litla svo mikla tannpínu að hún hljóðaði svo eingin gat sofið um nóttina; linaði pínan loksins við sandbakstur.

Sunnan frostgola og bjartviðri. Barnaskólinn byrjaði aftur hjá mér, og nú börnin 8 með Ármanni. Um kvöldið sat ég við að skrifa í skrifbækur og vitnisburðabækur m.fl. Um háttatíma fékk Björg litla svo mikla tannpínu að hún hljóðaði svo enginn gat sofið um nóttina; linaði pínan loksins við sandbakstur.

6. janúar 1869 „Þrettándi“

Sunnan frostgola og bjartviðri. 9 börn á skóla. Jón litli var hér og hjálpaði mér til því orðugt var við börnin að eiga. Læknirinn kom og skoðaði Björgu, gat ei dregið jaxl úr henni fyrir bólgu. Eg sat um kvöldið við skrifbækur barna m.fl. conciperaði bréf til amtsins fyrir Pál Pálsson.

Sunnan frostgola og bjartviðri. 9 börn á skóla. Jón litli var hér og hjálpaði mér til því orðugt [eða örðugt] var við börnin að eiga. Læknirinn kom og skoðaði Björgu, gat ei dregið jaxl úr henni fyrir bólgu. Ég sat um kvöldið við skrifbækur barna m.fl. conciperaði bréf til amtsins fyrir Pál Pálsson.

15. febrúar 1869

Norðan hríðar kafald með frostgrimd. Eg hafði 10 börn á skóla, sat við að laga stila um kvöldið. Nú gengur Armanni seint og illa í deilingu og hafði eg raun af því.

Norðan hríðar kafald með frostgrimmd. Ég hafði 10 börn á skóla, sat við að laga stíla um kvöldið. Nú gengur Ármanni seint og illa í deilingu og hafði ég raun af því.