Fara í efni
Menning

Smámunasafnið 20 ára – vinsæl sýning Samúels

20 ár voru í gær síðan hið stórmerkilega Smámunasafn Sverris Hermannssonar var opnað í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit. Minjasafnið á Akureyri sér um rekstur safnsins í sumar og segir Sigríður Rósa Sigurðardóttir safnstýra að aðsókn hafi verið býsna góð.

Eftir að Minjasafnið tók við rekstrinum í vor var ákveðið að brydda upp á þeirri nýjung að bjóða upp á myndlistarsýningar í Sólgarði og það er Samúel Jóhannsson sem reið á vaðið. Samúel er búsettur í Eyjafjarðarsveit og sýnir bæði vatnslitamyndir og fuglaskúlptura. Vert er að nefna að um sölusýningu er að ræða. Safnið verður opið til 20. ágúst. Þangað til er opið frá miðvikudegi til sunndags kl. 13.00 til 17.00.

Í tilefni afmælisins hyggst Sigríður Rósa rifja upp sögu safnsins í máli og myndum á samfélagsliðum safnsins næstu daga, bæði á Instagram og Facebook. Ástæða er til að hvetja fólk að fylgjast með.

Samúel Jóhannsson á sýningu sinni í Sólgarði.

Fann ýmsa dýrgripi

Sigríður Rósa hefur í vetur farið í gegnum allt sem flutt var frá heimili Sverris inn í Sólgarð á sínum tíma. „Já, nú er loks búið að fara í gegnum allt saman. Það var ekkert smá verk en ég hef fundið marga dýrgripi og rakst á mikinn fróðleik; Sverrir hefur til dæmis haldið til haga öllum upplýsingum um þau hús sem hann gerði upp, bréfaskriftum við Minjaráð og þjóðminjavörð, teikningum og útreikningum – hann skrásetti allt sem hann gerði.“

Munum hefur verið bætt á sýninguna í sumar. „Við höfum verið að þétta sýninguna; bættum til dæmis við munum inn á klósettunum. Nú hvetjum við alla sem koma á safnið til að fara á klósettið!“ segir Sigríður Rósa og hlær dátt.

Hollywood leikkonan Jodie Foster heimsóknni Smámunasafnið í vetur og kvaðst heilluð af því sem fyrir augu bar. Foster er hér, til hægri, ásamt Sigríði Rósu safnstýru.