Fara í efni
Menning

Saga ungu, einstæðu stúlkunnar í Grímsfjósum

Akureyringurinn Ingólfur Sverrisson sendi á dögunum frá sér bókina Höfuðdagur eins og Akureyri.net hefur þegar greint frá. Bókin er að uppistöðu til sendibréf sem höfundurinn sendi móður sinni í Sumarlandið að kvöldi dagsins þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu hennar. Þetta var 29. ágúst síðastliðinn.

Móðir Ingólfs,  Andrea G. Jónsdóttir, fæddist í þurrabúðinni Nýjabæ á Stokkseyri þar sem foreldrar hennar og systkini lifðu tiltölulega áhyggjulausu lífi miðað við þá tíma. En svo kom áfallið mikla þegar hún hafði misst báða foreldra sína sex ára og hreppurinn ráðstafaði henni til ókunnugs fólks í þorpinu. Hvernig komst hún af við aðstæður sem ríktu á þeim tíma í litlu þorpi við suðurströndina? Hvernig liðu dagarnir, hvernig reyndist fólk henni við þessar aðstæður og hvað skipti sköpum að hún komst heil frá því að vera hreppsómagi í tíu ár?

Yfir þetta fer höfundur í bréfinu og segir frá lífi hennar þessi ár. Þar er meðal annars greint frá því þegar hún vaknaði fyrsta morguninn á nýjum stað. Hér er sá kafli:

„Bjarma tók fyrir nýjum degi. Geislar morgunsólarinnar gægðust af varkárni inn um gluggann á loftinu í Grímsfjósum þar sem allt var kyrrt og hljótt. Stúlkan opnaði augun hægt og gætilega en nokkra stund tók að ná áttum. Var hún enn í draumalandinu eða komin til baka úr því ferðalagi sem hafði staðið næturlangt? Hún nuddaði stírurnar úr augunum og eftir smástund skýrðist umhverfið sem við fyrstu sýn var henni með öllu framandi. Smátt og smátt rifjuðust atburðir síðustu daga upp fyrir henni og hún fann aftur fyrir kvíðakekkinum innra með sér. Hún mundi loks að hún var orðin einstæðingur og vissi ekki hvort hún tilheyrði nokkru eða nokkrum. Henni fannst eins og hún væri stödd í einhverju óskilgreindu tómarúmi og svifi þar stjórnlaust fram og aftur. Enda þótt hún vissi af fólk í húsinu hvolfdist yfir hana söknuður fyrstu atlota sem hún hafði jafnan notið frá mömmu sinni í morgunsárið. Nú var ekkert slíkt lengur í boði, hún heyrði ekki bröltið í systkinunum þegar þau voru að fara fram úr, engin angan frá hafragrautnum, ekkert snuss í Snata við að koma liðinu á fætur og enginn leikföng frá pabba sjáanleg. Þess í stað nagandi óvissa og öryggisleysi sem henni fylgir; einsemdin í öllum nöturleika sínum.

Lítil og hógvær stúlka í nýjum heimi reis upp við dogg, ýtti sænginni frá sér, teygði fæturna og færði þá varlega fram á rúmstokkinn. Eftir nokkra stund steig hún niður og gekk fyrstu skrefin inn í veröld sveitarómagans. Það var nafngiftin sem löngum var klínt á börn sem lentu í þeirri nöturlegu aðstöðu að vera vistuð á kostnað hreppsins hjá ókunnu fólki. Þess eru dæmi að nafngiftin sú hafi tekið sér bólfestu í hugum barna til fullorðinsára og jafnvel til hárrar elli, oft og tíðum með alvarlegum afleiðingum.

Já, mamma mín, þetta var, sem betur fór, ekki morgunn hinsta dagsins í lífi þínu, en mikið þótti þér hann samt erfiður því að söknuðurinn var yfirþyrmandi og sár. Hvar var fólkið þitt, verður þetta alltaf svona, er þetta óumbreytanlegt, er ekki hægt að vinda ofan af þessari atburðarás? Af hverju fæ ég ekki að vera með fólkinu mínu? Er þetta virkilega vilji Guðs? Hvað er hann að hugsa? Þannig hlóðust spurningarnar upp en engin svör fengust, engin viðbrögð, ekkert.

En viti menn, þegar neyðin er stærst er hjálpin oft ekki langt undan: Eitthvert þrusk heyrðist við dyrnar og þú gekkst að hurðinni og opnaðir ofurvarlega. Birtist þá kattartrýni í gættinni sem mjálmaði ámátlega og var greinilega að óska inngöngu. „Komdu inn,” sagðir þú þar sem þú stóðst á náttfötunum einum saman. Brandur gekk hægum og virðulegum skrefum inn á mitt gólfið, litaðist um og lagðist síðan niður og horfði til þín augnaráði sem fól í sér einlæga bæn um smáklapp og knús. Þú gekkst til hans, kraupst á knén og klappaðir honum innilega þar til hann tók að mala af ánægju og vellíðan. Þú brostir til hans. Hann sveiflaði skottinu.

Þetta var fyrsta brosið í marga daga sem sagði meira en lærðir fyrirlestrar um mikilvægi þess að eignast góðan vin og sálufélaga á erfiðum tímum. Sem þið voruð þarna á miðju gólfinu og hjúfruðuð ykkur hvort að öðru var eins og losnaði um kökkinn í brjóstinu og örlítill vottur af gleði gerði vart við sig langt inni í hugskoti þínu.

Ekki er örgrannt um að á þessu andartaki hafi orðið tímamót og lítið ljós hafi kviknað í sálartetrinu; ljós nýrra vonar sem er forsenda þess að komast af, endurnýja lífslöngunina og ná flugi til farsællar framtíðar.”

Og áfram er sagt frá lífi á Stokkseyri og þroskasögu ungu einstæðu stúlkunnar í Grímsfjósum, draumum hennar og skólagöngunni sem byrjaði í þá daga þegar börn voru tíu ára. Úr bókinni: „Krakkarnir í bekknum urðu fljótt vinir þínir, öll með tölu og saman fóruð þið í leiki í frímínútunum þar sem gleðin ein réð ríkjum. Þarna var að myndast samfélag sem þér fannst bæði gott og gagnlegt að vera hluti af, fyrir nú utan hvað það var skemmtilegt. Þessi elsti barnaskóli landsins var því eins konar vé fyrir þig og hugsanir þínar, þroska og þörf til að vita meira í dag en í gær. Þarna var viskubrunnurinn sjálfur og miklvægt að drekka af honum hægt og varlega en gæta þess að svelgjast ekki á af öllum þeim fróðleik sem hann var með á boðstólum.”

Þegar móðir höfundar hafði verið fermd dró að því að hún varð að standa á eigin fótum og sjá um sig sjálf. Hvernig stóð á því að hún flutti alla leið norður á Akureyri sextán vetra? Hvernig gekk það mikla ferðalag fyrir sig og hverjar voru móttökurnar fyrir norðan? Var ferðalagið norður erindisleysa? Eða hvað?

Frá þessu öllu er sagt í bókinni sem kennd er við afmælisdag hennar – höfuðdag.