Fara í efni
Menning

Íslensk tangótónlist á LYST miðvikudagskvöld

Fólk tengir tangótónlist líklega ekki fyrst af öllu við Ísland enda tónlistin upprunnin í Argentínu og Úrúgvæ seint á 18. og á 19. öldinni. Íslensk tangótónlist mun þó engu að síður hljóma á LYST í Lystigarðinum annað kvöld, miðvikudagskvöld.
 
Þær Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir söngkona og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmonikkuleikari ætla að gera íslenskum tangó skil í tali og tónum á tónleikum á LYST. Fyrstu tónleikar þeirra með sömu efnisskrá fóru fram í Hörpu síðastliðið haust og þóttu stórskemmtilegir, að því er fram kemur í kynningu á tónleikunum. Þar segir einnig: Blómaskeið íslenskrar tangótónlistar var um miðbik síðustu aldar. Margir þekktir lagahöfundar sömdu falleg tangólög og má í þeim hópi nefna til dæmis Oddgeir Kristjánsson, Bjarna Böðvarsson, Friðrik Jónsson, Vilhelmínu Baldvinsdóttur og Tólfta september. Sum laganna njóta enn vinsælda í dag á meðan önnur eru gleymdari. Ása og Ásta deila ástríðu á þessum menningarverðmætum íslenskrar tónlistar og vilja nú leyfa þessum fallegu íslensku tangólögum að hljóma á Norðurlandi.
 
Tónleikarnir á LYST verða miðvikudagskvöldið 17. apríl og hefjast kl. 20. Miðasala er á lyst.is og við dyrnar, en miðaverð er 3.500 krónur. Þær stöllur halda svo áfram um Norðurland og verða með tónleika á Dalvík 16. apríl, í félagsheimilinu Breiðumýri í Reykjadal 18. apríl og í Blönduósskirkju 19. apríl.