Fara í efni
Menning

Haukur Sindri sendir frá sér tvö jólalög

Akureyringurinn Haukur Sindri Karlsson tónskáld sendi á dögunum frá sér tveggja laga plötu sem hann kallar Jól á Akureyri og finna má á Spotify. Haukur Sindri lauk mastersnámi í tónsmíðum frá Royal College of Music í London í sumar og starfar nú í Kaupmannahöfn.

„Ég samdi þessa tónlist í byrjun desember eftir að hafa heimsótt kærustuna mína í Portúgal og var í miklu jólaskapi. Mig hefur alltaf langað að gera jazzaða jólatónlist í anda Nat King Cole sem varð innblásturinn að Jólanótt á Ráðhústorgi. Ég hugsaði mikið um göngugötuna og jólatréð í miðbænum þegar ég vann að því,“ segir tónskáldið þegar Akureyri.net bað hann að segja frá lögunum.

„Einnig langaði mig að gera Hollywood kvikmyndatónlist í anda jóla-annríkisins sem varð að verkinu Snjórinn fellur! Glerártorg, umferðin, asinn og spenningurinn fyrir jólunum var mikill innblástur. Það er langt síðan ég hef verið á Akureyri yfir hátíðarnar þar sem ég er búsettur erlendis, en mér þykir verulega vænt um heimabæinn og minningarnar sem ég á þaðan frá jólunum.“

Tónskáldinu fannst viðeigandi að gefa lögin út núna og dreifa jólaandanum fyrir þá sem vilja, eins og hann orðar það.

„Ég útskrifaðist úr mastersnámi í tónsmíðum frá Royal College of Music í London í júlí síðastliðnum og um þessar mundir er ég að vinna í Kaupmannahöfn hjá tölvuleikjaframleiðanda sem heitir GAMUCATEX, við að semja tónlist fyrir leikinn Tectonicus, sem að er í stöðugri þróun. Einnig er mikið að gerast hjá mér og Atla Degi vini mínum með tónlistarverkefnið hans „Atli“ og nóg af nýrri tónlist að koma á næstu mánuðum sem ég hlakka til að gefa út!“

Nýju jólalögin tvö eru á Spotify. Smellið hér til að fara þangað. 

Akureyri.net birti viðtal við Hauk Sindra í janúar 2021 þegar hann hafði fengið inni í Royal College of Music:

Gáði oft hvort bréfið væri örugglega til mín