Fara í efni
Menning

Gulli Egils sáldrað í Hofi – MYNDIR

Feðgarnir Ólafur Egill Egilsson og maður kvöldsins í Hofi, goðsögnin Egill Ólafsson, sem steig á svið undir lok tónleikanna. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Lokinu var lyft af gullkistu Egils Ólafssonar í menningarhúsinu Hofi á laugardagskvöldið og fáein sýnishorn frá músíkævi þessa stórbrotna, fjölhæfa listamanns dregin fram og fægð svo stirndi á þau.

Egils gull var fram borið í þéttsetinni Hamraborg og rausnarlega veitt, þótt tíminn hafi einungis gefið færi á brotabroti þess sem leynist í kistunni miklu. Fyrri hluta tónleikanna var stiklað á stóru, komið við hér og þar, en eftir hlé var áherslan á Þursaflokksárin góðu.

Listamennirnir nærðu skynfæri 500  samkomugesta sem fylltu Hamraborg; kvöldið verður ógleymanlegt þeim sem fylgst hafa náið með Agli allar götur síðan hann söng og plokkaði kontrabassann með Spilverki þjóðanna í den tid.

Hún er falleg og þakkarverð, hugmynd Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar, Eyþórs Inga þúsundþjalalistamiðs frá Dalvík og félaga hans í hljómsveitinni Babies, að heiðra Egil með þessum hætti.

Guðni Franzson stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sonur Egils, leikarinn Ólafur Egill, sagði frá og söng með bravör og dívan Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir – samstarfskona Egils í Spilverkinu og iðulega síðan – var frábær að vanda.

Egill, sem glímir við parkinson sjúkdóminn, er hættur að performera af þeim sökum en heiðraði tónleikagesti með nærveru sinni og steig meira að segja á svið; tók þátt í flutningi lokalaganna sem kom þægilega á óvart og kórónaði fallega kvöldstund.

Vonandi verður leikurinn endurtekinn svo fleiri fái notið með eigin augum og eyrum.