Fara í efni
Menning

Dagbækurnar V – Flutt í kaupstaðinn

Í dag birtist fimmta grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Ármann Sveinsson á þriðja ári. Myndin er í eigu Þjóðminjasafnsins.

Þann 7. júní 1865 flutti fjölskylda Sveins Þórarinssonar frá Möðruvöllum í Hörgárdal inn á Akureyri. Bærinn hafði endurheimt kaupstaðarréttindi þremur árum fyrr, árið 1862, eftir að hann missti þau 1836. Þann 24. maí var fyrsti flutningur á eignum fjölskyldunnar til Akureyrar og hjálpuðu vinir og vandamenn greinilega til. Annars virðist lífið á Möðruvöllum hafa verið nokkuð venjulegt; Sveinn vann þrátt fyrir veikindi, gestir komu og drukku aðeins of mikið og hafísinn hamlaði skipakomum.

24. maí 1865

Logn og blíðviðri. Eg reið með Sigurbirni og Magnúsi í Spónsgerði inn á Akureyri, var þar lengst af um daginn keypti smávegis, kaffe, sikur, brennivín etc, reið heim með amtmanni um kvöldið. Grímur á Gæsum fór með bátsfarm af flutningi mínum inn á Akureyri. Mángi í Spónsgerði sem með mér var drakk sig skítfullann.

Logn og blíðviðri. Ég reið með Sigurbirni og Magnúsi í Spónsgerði inn á Akureyri, var þar lengst af um daginn keypti smávegis, kaffi, sykur, brennivín etc, reið heim með amtmanni um kvöldið. Grímur á Gásum fór með bátsfarm af flutningi mínum inn á Akureyri. Mangi í Spónsgerði sem með mér var drakk sig skítfullann.

25. maí 1865 - Uppstigningard.

Logn og þoka dögg mikil og gróðrarveður, jörð mikið farin að grænka. Messað fyrir Möðruvallasókn í Glæsibæ fóru fáir, hér komu ýmsir sem eg tracteraði á brennivíni. Lárus í Brekku tafði hér. Þorsteinn frá Fornhaga kom til mín til vistar. Skýrt barn Sigurðar á Hallgilsstöðum Tómas.

Logn og þoka dögg mikil og gróðrarveður, jörð mikið farin að grænka. Messað fyrir Möðruvallasókn í Glæsibæ fóru fáir, hér komu ýmsir sem ég trakteraði á brennivíni. Lárus í Brekku tafði hér. Þorsteinn frá Fornhaga kom til mín til vistar. Skírt barn Sigurðar á Hallgilsstöðum Tómas.

26. maí 1865

Sama veður. Eg var við skriptir, er búin að concipera umboðsreikning Eggerts. Eg lét Þorstein fara með flutning á 3 hestum að Gæsum, var lasin af taki í hægri síðu. Þorlákur hér fór í kaupstað, átti að útrétta nokkuð fyrir mig.

Sama veður. Ég var við skriftir, er búin að concipera umboðsreikning Eggerts. Ég lét Þorstein fara með flutning á 3 hestum að Gásum, var lasin af taki í hægri síðu. Þorlákur hér fór í kaupstað, átti að útrétta nokkuð fyrir mig.

27. maí 1865

Norðan kulda stormur. Þorsteinn gerði að taumbeizlum klifberum og fl. Eg sat við skriptir. 3 skip sigldu inn fjörðin nl. Hertha og P.Th. Johnsen með 2 skip; hefir ís mjög hamlað skipakomum, og 1 skip sem fara átti á Hólanes farist í ís við Langanes.

Norðan kulda stormur. Þorsteinn gerði að taumbeislum klyfberum og fl. Ég sat við skriftir. 3 skip sigldu inn fjörðinn nl. Hertha og P. Th. Johnsen með 2 skip; hefur ís mjög hamlað skipakomum, og 1 skip sem fara átti á Hólanes farist í ís við Langanes.

28. maí 1865

Norðan kulda stormur með frosti á nóttunni. Engin messa. Eg smurði reiðtýgi mín og beisli. Jón á Gautlöndum kom og gisti hjá amtm. drukku þeir saman um kvöldið, og flugust svo á, vóru skildir og sættust aptur.

Norðan kulda stormur með frosti á nóttunni. Engin messa. Ég smurði reiðtygi mín og beisli. Jón á Gautlöndum kom og gisti hjá amtm. drukku þeir saman um kvöldið, og flugust svo á, voru skildir og sættust aftur.

29. maí 1865

Norðan froststormur. Gróður vottur sá sem komin var erað kala. Eg sat við að revidera reikninga. Fréttist að Hólanes skip hefði farist fyrir Langanesi. Jón á Gautl. fór. Sýslumaður Stephán gisti hér.

Norðan froststormur. Gróður vottur sá sem komin var er að kala. Ég sat við að endurskoða reikninga. Fréttist að Hólanes skip hefði farist fyrir Langanesi. Jón á Gautl. fór. Sýslumaður Stefán gisti hér.

30. maí 1865

Norðan frostgola. Eg fékk um morgunin krampa fyrir bringsbalir skánaði af Laudanum. Reið svo með Þorsteini inn í kaupstað og heim aptur um kvöldið. Þorst. varð eptir. Syslumaður gisti hér.

Norðan frostgola. Ég fékk um morguninn krampa fyrir bringsbalir skánaði af Laudanum. Reið svo með Þorsteini inn í kaupstað og heim aftur um kvöldið. Þorst. varð eftir. Sýslumaður gisti hér.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Því miður er búið að rífa næstu blaðsíður úr bókinni og hefst því frásögn Sveins aftur þann 7. júní. Líkt og svo oft áður var Sveinn veikur en þau náðu þó að flytja restina af búslóðinni í bæinn og fjölskyldan settist þar að ásamt vinnufólki.

7. júní 1865

Logn og hlýtt blíðviðri. Eg var mjög lasin gat ekkert aðhafst fékk 4 menn til að flytja mig fólk og fé til Akureyrar og fleyri sem hjalpuðu til. Sumir fóru með 20 áburðarhesta á eptir en eg reið með fólki mínu á undan, allt gekk vel því veður var blítt, og settumst við að í húsi Páls Magnussonar nefnil.

Eg,

Kona mín

4 börn: Björg, Jón, Ármann og Friðrik

Þorsteinn Björnsson vinnum.

Hildur Snorradóttir og

Olöf Olafsdottir vinnukonur

I dag var lokið við að setja niður í kartöplugarð minn hér.

Logn og hlýtt blíðviðri. Ég var mjög lasin gat ekkert aðhafst fékk 4 menn til að flytja mig fólk og fé til Akureyrar og fleiri sem hjálpuðu til. Sumir fóru með 20 áburðarhesta á eftir en ég reið með fólki mínu á undan, allt gekk vel því veður var blítt, og settumst við að í húsi Páls Magnussonar nefnil.

Ég,

Kona mín

4 börn: Björg, Jón, Ármann og Friðrik

Þorsteinn Björnsson vinnum.

Hildur Snorradóttir og

Ólöf Ólafsdóttir vinnukonur

Í dag var lokið við að setja niður í kartöflugarð minn hér.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Næstu daga héldu veikindi Sveins áfram en þrátt fyrir það reið hann yfir á Möðruvelli til að vinna tveimur dögum eftir flutninga. Það kemur líklega ekki á óvart þegar tekið er tillit til erfiðs sambands hans og amtmannsins og eilífrar fátæktar fjölskyldunnar. Þann 14. júní var Sveinn hins vegar sóttur þegar Ármann litli, sem var alveg að verða fjögurra ára, slasaðist í nýja húsinu þeirra. Hann hafði dottið niður í kjallarann og rifið á sér kinnina á nagla. Ármann virðist þó hafa verið nokkuð fljótur að ná sér því aðeins þremur dögum seinna var hann mun betri.

Úr Nonnahúsi þar sem Ármann litli Sveinsson, alveg að verða fjögurra ára, datt niður í kjallarann.

8. júní 1865

Sunnan vindur, Eg lá dauðveikur með gall og graptrar uppgangi. Finsen læknir vitjaði mín, og fékk eg meðöl. Guðm. Halldórsson var hjá mér um daginn og kom fyrir hlutum mínum í húsunum og hverju á sinn stað eptir sem hægt er.

Sunnan vindur, ég lá dauðveikur með gall og graftrar uppgangi. Finsen læknir vitjaði mín, og fékk ég meðöl. Guðm. Halldórsson var hjá mér um daginn og kom fyrir hlutum mínum í húsunum og hverju á sinn stað eftir sem hægt er.

9. júní 1865

Sunnan vindur. Eg var mjög veikur, fór samt móti ráðum læknisins út að Möðruvöllum, settist að í murhúsi á gamla verelsi mínu í norðurenda á loptinu, fáir vóru þar heima þegar eg kom, og fékk eg þurlegar viðtökur, svo veikur sem eg var og klofvotur úr Hörgá sem eg reið nærri á sund. Brúðkaup Jónasar á Möðruvöllum og Tómasar á Hallgilsstöðum haldið í Fornhaga og reið Þorsteinn hjá mér þángað hittum við Bruðkaups fólkið í Glæsibæ og reið eg þaðan einn að Möðruvöllum.

Sunnan vindur. Ég var mjög veikur, fór samt móti ráðum læknisins út að Möðruvöllum, settist að í múrhúsi á gamla herbergi mínu í norðurenda á loftinu, fáir voru þar heima þegar ég kom, og fékk ég þurrlegar viðtökur, svo veikur sem ég var og klofvotur úr Hörgá sem ég reið nærri á sund. Brúðkaup Jónasar á Möðruvöllum og Tómasar á Hallgilsstöðum haldið í Fornhaga og reið Þorsteinn hjá mér þangað hittum við brúðkaupsfólkið í Glæsibæ og reið ég þaðan einn að Möðruvöllum.

10. júní 1865

Sunnan vindur, Eg sat veikur við skriptir. Þorsteinn kom frá Fornhaga um miðaptan flutti fjalir á hesti inn á Akureyri fyrir mig veizlufólkið tindist að og kom hér við. Þorsteinn kansellíráð kom BT k.m.

Sunnan vindur, ég sat veikur við skriftir. Þorsteinn kom frá Fornhaga um miðaftan flutti fjalir á hesti inn á Akureyri fyrir mig veislufólkið týndist að og kom hér við. Þorsteinn kansellíráð kom bréf til konu minnar.

11. júní 1865 - Trínitatis

Sunnan rosa stormur. Eingin messa. Eg ranglaði veikur hér um húsið í óþolandi trekk. Þorsteinn kansellíráð fór héðan um kvoldið. BF Sra Þórði BT hans aptur og 10rd uppi Salair.

Sunnan rosa stormur. Engin messa. Ég ranglaði veikur hér um húsið í óþolandi trekk. Þorsteinn kansellíráð fór héðan um kvöldið. Bréf frá séra Þórði bréf til hans aftur og 10 ríkisdalir upp í laun.

12. júní 1865

Sunnan gola, Lárus í Brekku og Jón á Þrastarhóli tóku út Möðruvallabæ og Nunnuhól. afhenti Þorlákur Björnsson sinn part og eg minn af bænum, og ritaði og undirskrifaði úttektir þessar vegna mín og amtmanns.

Sunnan gola, Lárus í Brekku og Jón á Þrastarhóli tóku út Möðruvallabæ og Nunnuhól. Afhenti Þorlákur Björnsson sinn part og ég minn af bænum, og ritaði og undirskrifaði úttektir þessar vegna mín og amtmanns.

13. júní 1865

Sunnan hita vindur. Eg sat við skriptir. Amtmaður liggur með harmatölum [=það að rekja harma sína, kveinstafir]. Sigfús á Nunnuhól sló allar þiljur innanúr skemmu minni, en Lilja í Sponsgerði skúraði innan baðstofupart minn, sem nú stendur auður.

Sunnan hita vindur. Ég sat við skriftir. Amtmaður liggur með kveinstöfum. Sigfús á Nunnuhól sló allar þiljur innan úr skemmu minni, en Lilja í Spónsgerði skúraði innan baðstofupart minn, sem nú stendur auður.

14. júní 1865

Sunnan hvassviðri. Hör[g]á ófær, nema íllferjandi. BT K.m. Eg sat við skriptir. I morgun hafði Armann litli dottið ofaní kjallara í húsi mínu á Akureyri og rifið sundur á nagla kinnina aðra úr munnviki aptur undir eyra, innúr að tönnum, kom því Þorsteinn Björnsson að sækja mig og reið eg inneptir um kvoldið og komst á Lónsferju yfir ána, var drengurinn rólegur, hafði Finsen bundið og nælt saman kinnina með 6 prjónum. Eg var lasin af geðshræringu og fl. svaf ekkert um nóttina og k.m. ekki heldur.

Sunnan hvassviðri. Hörgá ófær, nema illferjandi. Bréf til konu minnar. Ég sat við skriftir. Í morgun hafði Ármann litli dottið ofan í kjallara í húsi mínu á Akureyri og rifið sundur á nagla kinnina aðra úr munnviki aftur undir eyra, inn úr að tönnum, kom því Þorsteinn Björnsson að sækja mig og reið ég inn eftir um kvöldið og komst á Lónsferju yfir ána, var drengurinn rólegur, hafði Finsen bundið og nælt saman kinnina með 6 prjónum. Ég var lasinn af geðshræringu og fl. svaf ekkert um nóttina og kona mín ekki heldur.

15. júní 1865

Sunnan vindur. Eg sat yfir Armanni, Finsen vitjaði hans. Þorsteinn byrjaði með 5. mann að taka upp svörð f. mig í Hamra gröfum. Eg keypti svört föt af P. Johnsen á 41rd. Frakka buxur og vesti.

Sunnan vindur. Ég sat yfir Ármanni, Finsen vitjaði hans. Þorsteinn byrjaði með 5. mann að taka upp svörð f. mig í Hamra gröfum. Ég keypti svört föt af P. Johnsen á 41 ríkisdal. Frakka, buxur og vesti.

16. júní 1865

Hlýr vindur á sunnan. Hiti í skugga 17–20°. Armann var rólegur og sýndist þrauta lítill. Eg lagði á stað út að Möðruvöllum, sneri aptur við Glerá ófæra, og var heima um nóttina. Hinir sömu 5 menn tóku upp svörð í dag fyrir mig. Eg borgaði þeim ollum um kvoldið.

Hlýr vindur á sunnan. Hiti í skugga 17–20°. Ármann var rólegur og sýndist þrautalítill. Ég lagði á stað út að Möðruvöllum, sneri aftur við Glerá ófæra, og var heima um nóttina. Hinir sömu 5 menn tóku upp svörð í dag fyrir mig. Ég borgaði þeim öllum um kvöldið.

17. júní 1865

Sami hita vindur á sunnan. Eg byrjaði að hreinskrifa umboðsreikning minn. Finsen tók 1sta prjóninn úr kinn Ármanns sem strax er betri. Eg reið svo með Joni Kristjanssyni og fl. útað Möðruvöllum, náðum hattum að eins, settist þar að.

Sami hita vindur á sunnan. Ég byrjaði að hreinskrifa umboðsreikning minn. Finsen tók fyrsta prjóninn úr kinn Ármanns sem strax er betri. Ég reið svo með Jóni Kristjánssyni og fl. út að Möðruvöllum, náðum háttum aðeins, settist þar að.