Fara í efni
Mannlíf

Stórstjörnur gefa út lagið „Akureyri“!

Sebastian Yatra og Aitana einhvers staðar á Íslandi og Aitana við eitt nýjasta kennileiti, hjartað stóra í göngugötunni. Myndir af Instagram reikningi hennar.

Nýtt lag sem kallast Akureyri var gefið út fyrir þremur dögum og væri varla í frásögur færandi nema vegna þess að flytjendur eru ekki Íslendingar heldur tvær spænskumælandi stórstjörnur í tónlistarbransanum.

Söngvararnir eru Sebastian Yatra frá Kólumbíu og hin spænska Aitana. Hann er gríðarlega vinsæll, ekki síst í Suður-Ameríku og hún á Spáni og víðar.

  • Nefna má að Yatra er með rúmlega 29 milljón fylgjendur á Instagram og Aitana tæplega 4 milljónir.
  • Samkvæmt upplýsingum frá tónlistarveitunni Spotify hlýða 25 milljónir manna á tónlist Yatra mánaðarlega og rúmlega 11 milljónir hlusta á lög Aitana í hverjum mánuði á þeirri veitu.

Myndbandið með laginu er tekið upp á Íslandi og þar er komið víða við, til dæmis við Gullfoss, við Kerið, í Reynisfjöru og að sjálfsögðu á Akureyri, en þrátt fyrir töluverða leit hefur Akureyri.net ekki tekist að finna skýringu á því hvers vegna lagið ber nafn höfuðstaðar Norðurlands. Þess má þó geta að Aitana segist á Instagram hafa komið til Íslands áður og kveðst ná sterkri tengingu við landið. Ef til vill átti hún við Akureyri!

Þetta er þriðja lagið sem Yatra og Aitana gefa út saman og það vakti mikla athygli þegar hún tilkynnti á samfélagsmiðlum í vikunni að von væri á laginu. Þau voru nefnilega par í nokkra mánuði í fyrra en tilkynntu undir árslok að þau væru hætt saman. Ef til vill kviknaði ástin á ný, að minnsta kosti hafa þau birt myndir af sér saman upp á síðkastið, til dæmis á körfuboltaleik í Los Angeles. Það skiptir reyndar lesendur Akureyri.net væntanlega litlu máli en sjálfsagt að nefna fyrir áhugasama.

Smellið hér til að hlusta á lagið

Sebastian Yatra á Instagram

Aitana á Instagram

Umfjöllun tveggja spænskra fjölmiðla:

La Vanguardia

¡Hola!

Aitana við eitt nýjasta kennileiti Akureyri, hjartað í göngugötunni. Mynd af Instagram reikningi hennar.

Tónlistarfólkið við Akureyrarkirkju. Skjáskot af myndbandi sem birtist á vef spænska tímaritsins ¡Hola!