Fara í efni
Mannlíf

„Ég er alltaf að reyna að læra eitthvað nýtt“

Kristín Aðalsteinsdóttir. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Ég hef verið mjög lánsöm, í þeim störfum sem ég hef tekið mér fyrir hendur,“ segir Kristín Aðalsteinsdóttir, fyrrum prófessor og rithöfundur. Lengi kenndi hún í grunnskólum, en vilji til þess að læra hvernig best væri að mæta nemendum með sérþarfir leiddu hana út í langt viðbótarnám í sérkennslufræðum, bæði í Osló og Bristol á Englandi. Óhætt að segja að hún hafi síðan verið frumkvöðull í mótun sérkennslufræða heima á Íslandi.

Þriðji og síðasti hluti viðtals Akureyri.net við Kristínu birtist í dag.

Kristín í grænum lundi. Í fyrsta hluta viðtalsins, segir hún líf sitt hafa verið gott eftir að hún flutti til Akureyrar, tvítug að aldri. Mynd úr einkasafni Kristínar.

„Samskipti mín við fólk hafa gengið vel. Stundum hafa börn sem ég hef kennt búið við erfiðar aðstæður, en það mátti alltaf finna ljósið einhversstaðar. Þegar ég byrjaði að kenna, þekktist ekki mikið persónulegt samband við foreldra. Ég var líka oft með sextíu og eitthvað börn á minni könnu. Kennari þarf að sýna auðmýkt gagnvart aðstæðum barna, þora að taka á aðstæðum og beina erfiðum málum í réttan farveg.“

„Ég veit ekkert hvernig aðstæður eru í grunnskólum í dag,“ segir Kristín. „Mér líður eiginlega eins og ég sé að tala um eitthvað sem átti sér stað í fornöld. En sama hvernig tímanum líður, eru börnin ennþá sömu tilfinningaverurnar, og þau hafa alltaf verið.“

Það er þessi möguleiki að upplýsa og vekja nýja hugsun, sem er leiðarstefið í allri kennslu

„Ég hef aldrei hugsað út í það,“ segir Kristín, aðspurð um það hvort sé skemmtilegra að kenna börnum eða fullorðnum. „Ég hef alltaf haft gaman af því að kenna. Það er enginn eðlismunur á því að kenna fullorðnum eða börnum. Það er þessi möguleiki að upplýsa og vekja nýja hugsun, sem er leiðarstefið í allri kennslu.“ Kristín er sjálf mjög fróðleiksfús og ber það með sér að vera áhugasöm um fólk, málefni og flest sem fyrir augu ber. „Ég hugsa að það megi segja að ég sé ennþá að reyna að læra eitthvað nýtt. Ég hætti að kenna fyrir tíu árum, en síðan þá hef ég gefið út fjórar bækur. Eða fleiri. Ég man það ekki alveg, en þær eru um allt annað en kennslu.“

Fólki líður vel að finna að það sem það hefur að segja, skiptir einhverju máli

Bækur Kristínar eru ekki kennslubækur, en þær eru fróðlegar og eiga það sameiginlegt að varpa ljósi á eitthvað. Bækurnar sem hafa vakið mesta athygli eru 'Myndir og minningar', 'Innbærinn. Húsin og fólkið og 'Oddeyri. Saga, hús og fólk', en þessar bækur eru safn viðtala við fólk og í þessum tveimur síðarnefndu er líka fróðleikur um hús og hverfi á Akureyri.

Kristín sýnir blaðamanni bækurnar eftir sig. Hún hefur gefið út 10 bækur, ef meistara- og doktorsritgerðirnar eru taldar með. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Ég held að það sé kennarinn Kristín sem skrifar bækurnar,“ segir Kristín, sem hefur sérstakt yndi af því að taka viðtöl við fólk á mannlegu nótunum. „Það býr enginn yfir sömu reynslu en einhver annar og allir eiga sína sögu. Það er svo skemmtilegt að draga það fram.“ Kristín segir að skrif bókanna hafi stöðugt komið sér á óvart. „Ég var sífellt að heyra eitthvað nýtt, ekkert viðtal er öðru líkt. Mér fannst heillandi að fá tækifæri til þess að hlusta á og fá að miðla þessum sögum. Fólki líður vel að finna að það sem það hefur að segja, skiptir einhverju máli.“

Ég held að ég geti alveg stillt mig um að taka fleiri viðtöl eða skrifa fleiri bækur. Ég veit hins vegar ekkert hvað ég á að fara að gera við tímann minn

Kristín segist vera hætt að skrifa bækur, en hún hefur alls skrifað tíu bækur, ef doktors- og meistararitgerðin eru taldar með. „Ég hef líka tekið mörg viðtöl við fólk um líf þess fyrir tímarit. Núna síðast tók ég viðtal við Ásu Marinósdóttur, ljósmóður, fyrir tímaritið Súlur. Svona viðtöl finnst mér gaman að taka og skrifa. Ég reyni að taka viðtöl við konur og karla til skiptis.“ Kristín segist vera alveg hætt núna að skrifa. „Ég held að ég geti alveg stillt mig um að taka fleiri viðtöl eða skrifa fleiri bækur. Ég veit hins vegar ekkert hvað ég á að fara að gera við tímann minn, ég er bara nýbúin að taka þessa ákvörðun.“

Kisan Rák fær að búa hjá Kristínu og Hallgrími í kyrrðinni í Aðalstrætinu. Hún er í eigu barnabarns hjónanna. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Þetta er svakalega skrítið,“ segir Kristín hlæjandi. „Ég hef aldrei setið svona lengi og talað um sjálfa mig!“ Blaðamaður hváir og spyr hvort það geti virkilega verið að engum hafi áður dottið í hug að taka viðtal við Kristínu Aðalsteinsdóttur. „Til hvers!“ segir Kristín og hlær meira áður en hún fær sér aðra kökusneið og kaffisopa.

Fallega húsið þeirra Kristínar og Hallgríms, sem stendur við Aðalstræti 52 í Innbænum. Mynd: Rakel Hinriksdóttir