Fara í efni
Íþróttir

Þór spáð góðu gengi – fyrsti leikur í kvöld

Fannar Daði Malmquist Gíslason skorar fyrir Þór gegn Gróttu á Seltjarnarnesi á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar hefja leik í Lengjudeildinni í knattspyrnu í kvöld þegar þeir mæta Þrótturum á AVIS velli þeirra í Laugardalnum í Reykjavík. Flautað verður til leiks klukkan 19.15.

Mikil tilhlökkun er í herbúðum Þórs, liðinu hefur gengið vel í vetur og Þórsurum er spáð velgengni í sumar. Sérfræðingar knattspyrnuvefs Íslands, fotbolti.net, gera ráð fyrir því að Afturelding verð efst í deildinni en spá Þórsurum öðru sæti. Nýr þjálfari er í brúnni hjá Þórsurum, Sigurður Heiðar Höskuldsson var ráðinn í vetur og liðið hefur leikið mjög vel undir stjórn hans það sem af er. Sigurður, sem er 38 ára, var síðast aðstoðarþjálfari Vals en áður aðalþjálfari Leiknis í Reykjavík til nokkurra ára. 

Aron Birkir Stefánsson markvörður er nýr fyrirliði Þórsliðsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Leikmannahópur Þórs hefur styrkst töluvert síðan í fyrra, helstu tíðindin eru þau að miðjumaðurinn Birkir Heimisson er komin heim eftir átta ára fjarveru. Hann fór aðeins 16 ára til Hereenveen í Hollandi en gekk til liðs við Valsmenn fyrir fjórum árum. Birkir er því enn aðeins 24 ára og verður afar spennandi að fylgjast með honum í sumar. Þá kom framherjinn Rafael Victor frá Njarðvík, mikill markaskorari sem virðist hafa smollið vel inn í Þórsliðið.

Smellið hér til að sjá allar breytingarnar á leikmannahópnum.

Á heimasíðu Þórs er greint frá því að stuðningsmenn liðsins ætli að koma saman á veitingastaðnum Ölveri í Glæsibæ klukkan 17.00 og fara þaðan saman á Þróttarvöllinn sem er í grenndinni. Sigurður þjálfari mun líta við á Ölveri og fara yfir liðið og áherslur þess í leiknum.

Leikir Þórs í fyrstu umferðum Lengjudeildarinnar eru þessir:

Föstudag 3. maí 19.15
Þróttur - Þór

Fimmtudag 9. maí 16.00
Þór - Afturelding

Mánudag 20. maí 14.00
ÍBV - Þór

Laugardag 25. maí 16.00
Þór - Keflavík

Föstudagur 31. maí 18.00
Njarðvík - Þór

Föstudagur 7. júní 17.30
Þór - Grindavík

Lengjudeildin á vef KSÍ