Fara í efni
Íþróttir

Skautameistari Íslands áratugum saman

Systkinin Edda Indriðadóttir og Örn Indriðason í umfjöllun í Tímanum 21. febrúar 1980. Skjáskot af timarit.is.
Í tilefni af því að keppt verður í skautahlaupi á Vormóti Skautasambands Íslands á laugardagskvöldið, í fyrsta skipti í 54 ár sem haldið er opinbert mót í skautahlaupi hér á landi, gluggar Akureyri.net í gömul dagblöð og leitar uppi umfjöllun og myndir af slíkum keppnum 1980 og enn lengra aftur í fortíðinni.
 
Síðasta opinbera keppni í skautahlaupi hér á landi var föstudaginn 29. febrúar 1980 á Vetraríþróttahátíðinni sem haldin var á Akureyri. Þá var keppt á langri braut utanhúss, en núna verður skautað í hring innanhúss. Keppt var í 500 og 1.500 metra skautahlaupi. Örn Indriðason vann bæði hlaupin í flokki fullorðinna og Ágúst Ásgrímsson sömuleiðis bæði hlaupin í flokki pilta. Á skjáskotum úr Morgunblaðinu 4. mars má sjá fleiri nöfn sem áhugafólk um skautaíþróttir þekkir vel, en eitthvað er þó málum blandið í útlistun Morgunblaðsins á úrslitunum því þar er tvisvar talin upp úrslit í 1.500 metrunum hjá körlum - sjá skjáskot neðst í fréttinni.
 
Fyrsta skautahlaupskeppnin sem haldin var á Íslandi fór fram á Reykjavíkurtjörn árið 1909. Keppt var mjög reglubundið á þeim tíma en íþróttin náði hámarksvinsældum hér á landi á sjötta og í byrjun sjöunda áratugs liðinnar aldar, að sögn Þóru Gunnarsdóttur, starfsmanns þróunar- og útbreiðslumála hjá Skautasambandi Íslands, sem unnið hefur að endurvakningu skautahlaupsins hér á landi. „Undir það síðasta voru menn farnir að líta til Noregs með að komast í meira krefjandi aðstæður og þjálfun,“ segir Þóra um þróun íþróttarinnar hér á landi. Eins og fram kom í umfjöllun Akureyri.net í gær hefur Skautasambandið unnið að því að endurvekja skautahlaupið, meðal annars til að gera áhugasömum kleift að keppa undir merkjum Íslands á alþjóðlegum mótum. Ekki fæst leyfi til þess nema hér sé regluleg og skipulögð starfsemi í íþróttinni. 
 
Akureyri.net hefur birt gamla íþróttamynd vikulega í nokkurn tíma og á Þorláksmessu í fyrra var einmitt birt mynd af skautahlaupurum sem kepptu 1961. Í leiðinni er ekki úr vegi að rifja einnig upp myndband sem Skautafélag Akureyrarbirti á YouTube-rás sinni nýlega með myndbandi af skautafólki 1941, meðal annars í skautahlaupi.
 
Í aukablaði Tímans um Vetraríþróttahátíðina 21. febrúar 1980 er rætt við skautasystkinin Eddu Indriðadóttur og Örn Indriðason. Í greininni er vitnað í Ásgrím Ágústsson, þjálfara skautafólks á Akureyri, sem sagði meðal annars: Þarna sérðu Örn Indriðason – Skautameistara Íslands.“ Ási vitnaði þarna til þess að Örn hafði unnið keppni í skautahlaupi 19 árum áður, 1961, en síðan hafði ekki verið haldið Íslandsmeistaramót í skautahlaupi.
 

Tímarnir sem Örn vann skautahlaupin á 1961: 500 m, 48,9 sekúndur – 1.500 m, 2:42,3 mínútur – 3.000 m, 5:38:00 mínútur – 5.000 m, 10:08,7 mínútur.
Örn hlaut því útnefninguna Skautameistari Íslands og hélt þeirri nafnbót í áratugi. Hann sigraði nefnilega einnig í 500 og 1.500 metra hlaupunum á Vetraríþróttahátíðinni 1980. Þessari nafnbót var svo enn haldið á lofti í umfjöllun í helgarblaði Dags 13. mars 1987 í tilefni af 50 ára afmæli Skautafélags Akureyrar.
 
Synir Ásgríms sem vitnað er í, tvíburarnir Ágúst og Bergþór, voru framarlega í keppni drengja og pilta. Ágúst sigraði í báðum flokkum og Bergþór endaði í 2. sæti í keppni drengja og 3. sæti í keppni pilta. Á þessum listum er svo að sjálfsögðu að finna nöfn fleiri Akureyringa sem þekktir eru í heimi skautanna.