Fara í efni
Íþróttir

Oddur Gretarsson er á heimleið í Þór

Handboltamaðurinn Oddur Gretarsson, sem leikið hefur í Þýskalandi undanfarin 11 ár, hefur samið við Þór og leikur með uppeldisfélagi sínu á ný frá og með næsta hausti. Þessi snjalli vinstri hornamaður verður 34 ára í sumar. Félag hans, Balingen - Weilstetten, tilkynnti í gær að fjölskyldan hefði því miður ákveðið að snúa heim til Íslands á ný og nú hefur Oddur skrifað undir samning við Þór.

Oddur Gretarsson skrifar undir samninginn við Þór á heimili sínu í Þýskalandi

Oddur sleit fyrstu handboltaskónum í yngri flokkum Þórs og steig fyrstu skrefin í meistaraflokki veturinn 2005 til 2006, þá aðeins 15 ára að aldri. Eftir að handknattleiksdeildir Þórs og KA hófu samstarf lék Oddur með Akureyri - handbolta og varð deildarmeistari með liðinu 2011. Hann söðlaði síðan um sumarið 2013 og gerðist atvinnumaður í íþróttinni í Þýskalandi.

Ytra lék Oddur fyrst með TV Emsdetten í fjögur ár en er nú að ljúka sjöunda keppnistímabilinu með Balingen-Weilstetten. Liðið hefur ýmist verið í 1. eða 2. deild en leikur í vetur í 1. deild.

Oddur á að baki 30 leiki með A-landsliðinu. Síðasta stórmót hans var HM í Egyptalandi í janúar 2021.

Glefsur frá ferli Odds

  • Efst í leik með Akureyri - handbolta gegn Haukum í desember 2009.
  • Miðjuröð: Eftir leik með meistaraflokki Þórs vorið 2006, enn 15 ára gamall – í búningi Akureyrar haustið 2007 – með bikarinn eftir að Akureyri varð deildarmeistari vorið 2011.
  • Neðst: Oddur fagnar marki með Balingen - Weilstetten í Þýskalandi.