Fara í efni
Íþróttir

María skoraði þrennu í undanúrslitum bikarsins

Þrjú mörk á innan við 20 mínútum. María Catharina Ólafsdóttir Gros og liðsfélagar hennar í Fortuna Sittard eru komnar í úrslitaleik hollensku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Mynd: Fortuna Sittard.

Akureyringurinn og fyrrum leikmaður hjá Þór/KA, María Catharina Ólafsdóttir Gros, skoraði þrennu fyrir lið sitt, Fortuna Sittard, í undanúrslitum bikarkeppninnar í Hollandi í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með öruggum sigri á Excelcior í undanúrslitum. Mbl.is greinir frá.

María tók sér ekki langan tíma til að skora þrennuna því hún kom Fortuna Sittard í 3-0 með sínu fyrsta marki þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Hún skoraði svo aftur tíu mínútum síðar og kláraði þrennuna á þriðju mínútu uppbótartíma. 

Fortuna Sittard mætir Ajax í úrslitaleik bikarkeppninnar 20. maí. Með Fortuna Sittard leika tvær aðrar íslenskar knattspyrnukonur, Lára Kristín Pedersen, sem lék með Þór/KA 2019, og Hildur Antonsdóttir.


María og liðsfélagarnir mæta til leiks í undanúrslitaleik bikarkeppninnar fyrr í kvöld. Mynd: Fortuna Sittard.

Lára Kristín Pedersen (til vinstri) lék með Þór/KA 2019, en gekk til liðs við Fortuna Sittard frá Val síðastliðið haust. Við hlið hennar er Hildur Antonsdóttir. Mynd: Fortuna Sittard.