Fara í efni
Íþróttir

Keppt í skautahlaupi í fyrsta sinn frá 1980

Frá keppni í skautahlaupi 1941. Myndin er skjáskot úr myndbandi sem Skautafélag Akureryar birti á YouTube-rás sinni á dögunum.
Fyrsta opinbera keppnin í skautahlaupi á Íslandi í 44 ár fer fram í Skautahöllinni á Akureyri laugardagskvöldið 2. mars. Keppnin er hluti af Vormóti Skautasambandsins þar sem listskautafólk kemur saman til keppni. Síðasta keppni fór fram á Akureyri föstudaginn 29. febrúar 1980 og var keppnin þá hluti af Vetraríþróttahátíð sem haldin var í bænum 28. febrúar til 2. mars það ár.
 
Áður en kemur að skautahlaupinu munu listskautarar eiga sviðið – eða svellið – því Vormót Skautasambands Íslands er fyrst og fremst keppni listskautara sem reyna með sér allan laugardaginn og langt fram eftir sunnudeginum. 
 
Akureyri.net mun grúska örlítið í gömlum dagblöðum, grafa upp myndir og umfjöllun um keppni í skautahlaupi á árum áður í tilefni af keppninni núna á laugardagskvöldið. En fyrst um nútíðina og mótið á laugardagskvöldið. 
 
  • NÆST: Skautameistari Íslands áratugum saman
  • ÞARNÆST: „Það slysaðist nú þannig til, að ég vann“
Íþrótt í aðstöðulimbói
 

Unnið hefur verið að því innan Skautasambands Íslands að endurvekja skautahlaupsíþróttina og hefur Þóra Gunnarsdóttir, starfsmaður þróunar- og útbreiðslumála hjá sambandinu, verið þar í fararbroddi. Jafnframt því að kynna og endurvekja íþróttina hefur blaðaúrklippum verið safnað saman í albúm undir Facebook-síðu Skatuasambandsins.

Aðstöðumálin eru íþróttinni fjötur um fót, en Þóra sér engu að síður tækifæri og áhuginn virðist til staðar. „Skautasambandið hóf þessa vinnu með það að sjónarmiði að geta boðið upp á allar þær íþróttagreinar sem tilheyra Alþjóðasambandinu. Ísgreinarnar hafa verið í algjöru aðstöðulimbói og iðkendafjöldi á landsvísu eins mikill og ístímar hallanna leyfa. Það er því einnig markmið að með aukinni fjölbreytni ísgreina komi þrýstingur á bæjarfélög um allt land að sinna þessum íþróttahluta meira,“ segir Þóra. Stöðug vinna er í gangi innan Skautasambandsins við að stuðla að auknu framboði ístíma um allt land.


Þóra Gunnarsdóttir, frumkvöðull við endurvakningu skautahlaups á Íslandi. Myndin var tekin þegar hún var sæmd gullmerki ÍSÍ á þingi Skautasambands Íslands í fyrra. Myndin er af vef sambandsins.

Íslendingar búsettir erlendis, einkum í Noregi, hafa í gegnum tíðina sýnt því áhuga að keppa fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum, en Skautasambandið hefur ekki getað orðið við slíkum beiðnum því krafa Alþjóðasambandsins er að til staðar sé skipulagt starf í íþróttinni hér til að skautahlauparar fái að keppa undir merkjum Íslands. Þar til fyrir einu og hálfu ári hafði skautahlaup ekki verið stundað hér á landi í áratugi og um komandi helgi verða einmitt liðin 44 ár frá síðustu opinberu keppni í skautahlaupi hér á landi. Nýjasta Íslandsmetið í greininni er þó frá þessari öld. Starkaður Hróbjartsson setti Íslandsmet í skautahlaupi í Noregi árið 2004, þá 11 ára gamall.

Frumkvöðlastarf í samstarfi við SA

Æfingar í skautahlaupi hófust hjá Skautafélagi Akureyrar fyrir einu og hálfu ári og hafa þær æfingar verið vinsælar meðal skíðagöngufólks að sögn Þóru. En því miður hefur ekki enn tekist að koma upp skipulögðum æfingum í Reykjavík og segir Þóra það vera sökum skorts á aðstöðu. Hún segir skautahlaup tilvalið til að iðka meðfram öðrum íþróttagreinum sem reyna á svipaða vöðvahópa og nefnir skíðagöngu, svigskíði, hjólreiðar, línuskauta, hlaup og götusvig sem dæmi um slíkar greinar.
 
Þóra segir skautara úr öðrum ísgreinum einnig hafa snúið sér að skautahlaupi, til dæmis ef ferlinum á listskautum eða í íshokki hefur lokið vegna meiðsla sem hamla þátttöku í þeim greinum. „Skautahlaup þarfnast einungis hraða, áræðni og hugrekkis við að ýta sér eins hratt og maður getur og koma fyrstur í mark,“ segir Þóra um það að stunda þessa íþrótt. 
 
„Er það von okkar hjá sambandinu að með þessu frumkvöðlastarfi í samvinnu við SA og þessari keppni á Vormóti í skautahlaupi að hægt verði að sækja um bráðabirgðaaðild að skautahlaupsarmi Alþjóðasambandsins,“ segir Þóra. Hún segir slíka aðild opna fjöldann allan af möguleikum fyrir íslenskt skautafólk og verði vonandi til þess að fjölbreytni í framboði á ísyfirborðum verði fýsilegri kostur fyrir bæjarfélög um allt land.
 
Keppnin er opin öllum
 
Skautahlaupsmótið sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri er öllum opið og ekki nauðsynlegt að keppendur tilheyri aðildarfélagi Skautasambands Íslands. Sambandið býður alla skautara sem áhuga hafa á að spreyta sig velkomna til þátttöku. Skráning stendur yfir í gegnum vef Skautasambands Íslands, sjá hér. Búnaður sem þarf eru skautar og hjálmur, en olnboga- og hnéhlífar eru val hvers keppanda. Nánar um skráninguna og fleira sem keppendur þurfa að vita er að finna á skráningarsíðunni hjá Skautasambandinu. 
 
Þóra útskýrir hvernig skautahlaupið fer fram. Tvenns konar skautahlaup er iðkað undir merkjum Alþjóða skautasambandsins, skautahlaup á langri braut sem er sú grein sem var iðkuð hér áður fyrr. Í þessari grein er keppt á tíma. Síðan þá hefur verið sett inn ný íþróttagrein, svokölluð „short track“ eða skautaat. Oftast eru ræstir 4-6 keppendur í hverri keppni og sá sem er fyrstur í mark sigrar. Oft geta verið mikil læti í greininni á mótum þar sem keppendur reyna að komast fram úr þeim sem fyrstur er og þá geta úrslit oft orðið óvænt er keppendur rekast utan í hvern annan og detta. Þessi grein er stunduð á sama íyfirborði og listskautar og íshokkí. Á Vormótinu munum við bjóða upp á keppni sem er sambland af þessum tveimur útfærslum. Hver keppni mun samanstanda af tveimur keppendum og er um hreina útsláttarkeppni að ræða. Sigurvegari mun etja kappi við sigurvegara úr öðrum riðli þangað til einn stendur eftir sem hraðasti skautari Íslands,“ segir Þóra. 
 
Keppnisflokkarnir
 
Keppnin hefst kl. 20 á laugardagskvöld. Keppt verður í tveimur flokkum, 12-16 ára og 17 ára og eldri. Keppt er með útsláttarfyrirkomulagi í tveimur vegalengdum í hvorum flokki.
 
  • Ungmenni (12-16 ára)
    • Einn hringur
    • Þrír hringir
  • Fullorðnir (17 ára og eldri)
    • Tveir hringir
    • Fjórir hringir
Auk sigurvegara í hverri grein verða veitt verðlaun fyrir hraðasta skautara Íslands og þá tekin til greina úrslit úr báðum vegalengdum samanlagt. Keppnisflokkarnir eru ekki kynjaskiptir að þessu sinni.